föstudagur, desember 02, 2005

Metsölubók fyrir næstu jól

Næstu jól ætla ég að gefa út bók sem verður metsölubók:

"Lykillinn að hamingju, fullnægingum, heilsu og framúrskarandi árangri"

Ég gef út nokkra punkta núna:
* Það sem skiptir mestu máli er að vera með gott sjálfstraust. Maður byggir upp jákvæða sjálfsmynd með jákvæðu sjálfstali.
* Ástæða þess að fólki líður illa eða gengur illa er vegna þess að það er með neikvætt viðhorf.
* Ástæða þess að sumir fá ekki fullnægingu er vegna neikvæðs viðhorfs.

Í stað þess að hugsa: "hvað gerði ég illa" hugsaðu þess í stað "hvað gerði ég vel".

Sjálfsstraust, einsog allar rannsóknir benda til, spá fyrir um góðan námsárangur, farsælt einkalíf og framúrskarandi árangur í vinnu. Það er sko ekki þannig að þeir sem læra mest eða vinna mest sem ná árangri, heldur þeir sem hafa mikið sjálfstraust.

Sjálfstraust tengist persónuleika, en er ekki hið sama. Persónuleiki getur verið neikvæður í undirmeðvitundinni en það má breyta ómeðvituðum hugsunum með því að hugsa ekki um þær, nema þá jákvætt. Þessi jákvæða hugsun endurspeglast svo í tjáskiptum og þeirri orku sem að einstaklingurinn gefur frá sér.

Þessar nýju rannsóknir sem hafa verið framkvæmdar - sýna að þeir sem ná árangri í náminu og vinnunni eru þeir sem hugsa jákvætt. Það eru ekki atburður sem gera menn óhamingjusama heldur hvernig þeir túlka þá - þeir sem eru sorgmæddir vegna ástvinamissis, sambandsslita eða þjóðarmorða hafa bara neikvætt viðhorf.

Ég verð með eftirfarandi námskeið á næstunni:
1. Leiðtogahugsun, sjálfstraust og mannauðsstjórnun: Lykilatriði í persónuleika leiðtoga og hvernig sjálfsímyndin endurspeglast í stjórnunarstíl.
2. Sjálfstraust og vinnan: Ástæðan fyrir því að þér líður illa í vinnunni tengist ekki launum, framkomu yfirmanna eða hversu drepleiðinlegt starfið er, heldur viðhorfi þínu.
3. Sjálfstraust og námið: Notaðu jákvæða orku til að hafa áhrif á minnið. Einnig verður farið ítarlega yfir að vera jákvæður í prófum.

6 ummæli:

Sigga sagði...

já eins og einhver snillingur í myndasögum moggans sagði "Til að vera hamingjusamur þarf maður að passa sig á vera ekki óhamingjusamur"
Afhverju er þetta brandari í myndasögum en fúlasta alvara og rannsóknarefni í sál(ar)fræði???

Heiða María sagði...

Þú verður ríkur á þessu, ég veit það.

Nafnlaus sagði...

já mér líst vel á þetta. Ætlarðu að taka reynslusögur af þessu með fullnæginuna? ;)
kv binni

baldur sagði...

Mælirðu þá með því að ég öskri I´m the man! þegar ég fæ fyllnægingu.

Eða bara marktekt!

Andri Fannar sagði...

marktekt endurspeglar svona tölfræðilegt sjálfstraust - en I'm the man endurspeglar svona karlímyndar sjálfstraust.

Aðalatriðið er bara að vera þú sjálfur!

Þetta kostaði 35.000, vinsamlegast legðu það inn á reikninginn.

Jara sagði...

Loksins bók sem er þess virði að kaupa og gefa öllum í jólagjöf! Get varla beðið. Verður hægt að fá áritað eintak? Auðvitað er ég ekki þreytt, mér finnst það bara vegna þess að viðhorf mitt er neikvætt. Og ég sem hélt það væri svefnleysi.. þvílik firra. Nú sé ég allt í nýju ljósi, þú veist svona jákvæðu. Takk Andri, ævinlega.