sunnudagur, mars 12, 2006

Doctor ó-doctor skrifar

Kæra Heiða fyrst þú opnar málið hér fyrir rottum kjallarans ætla ég að hafa nokkur orð um það.
Besta ráðið sem ég veit að virkar við flatneskju og eftirálagblús og framtíðartómleikatilfinningu (ef það er það sem þú ert í rauninni að tala um??) er að gefa sig heilshugar að einhverjum sem hefur það sannarlega (ekki sannanlega) verra en maður sjálfur í augnablikinu. Þá hefur maður ekki tíma til að sinna eigin flatneskju. Nú eða einhverju málefni sem í stærra samhengi skiptir meira máli en hvort maður er flatur, á bleiku skýi eða niðri í kjallara. Það er nánast alltaf hægt að finna einhvern sem hefur það verra en maður sjálfur í versta falli jafn slæmt.
Eitt annað trix sem ég kann er ágætt og það er að velta upp þeirri spurningu með sjálfum sér hvort a) ástand manns eða það sem manni þykir verst í því þætti fréttnæmt á síðum segjum, Morgunblaðsins og b) ef svo væri myndi einhverjum þykja það stórmál og áhugavert til lestrar og síðast en ekki síst c) hvernig fyrirsögnin myndi hljóma. Tökum dæmi: Ung liðlega þrítug kona í Vesturbænum upplifði mikið vonleysi og vanmetakennd er hún gerði sér ljóst að alveg sama hvað hún læsi sér til í tölfræði eða spyrði marga myndi hún alls ekki fá neinn botn í það til hvers raunverulega var ætlast af henni í öllum verkefnunum í Tölfræði á masterstigi. Auk þess efaðist hún um eigið ágæti og framtíðarhorfur í náminu. (Þetta er alveg sönn saga af Stúdentagörðunum). Þetta er ekki til þess fallið að gera lítið úr því hvernig manni getur liðið heldur hjálpar stundum til við að sjá hlutina í stærra samhengi. Það minnkar oft vandamálin. Undirrituð dregur í efa að þetta þætti mörgum fréttnæmt. Allavegana ekki mér sjálfri svona við hliðina á stríðsfréttum frá Írak eða um yfirvofandi stríð Bush við Íran. Enda er þessi umræddi tölfræðikúrs eiginlega löngu búinn og reynslan hefur sýnt að ég er ekki ennþá hætt í skólanum þrátt fyrir að hafa aldrei botnað í því hvað það var almennilega sem ég átti að vera að gera í þessu námskeiði. Svo kom á daginn að ég stóð mig víst ágætlega án þess að hafa hugmynd um það. Ég spái því líka að þú hafir staðið þig betur en þú heldur núna. Í samræmi við þekkingu þína í umræddu prófi og fyrri árangur fremur en hvernig þér líður með það svona rétt eftir sprettinn. "Feelings are not facts" það er gott að vita þegar maður hefur lært úrræðaleysi.
Þetta varla gerir illt verra þar sem lært hjálparleysi er afar bagalegt ástand og að mínu mati betra að líða ver en skár ef það þýðir að manni langar ekki að langa neitt. Með öðrum orðum það er skárra að hafa það verra ef að skárra þýðir að maður hafi það ekki yfir höfuð. Eða, það er betra að líða bara pínulítið illa heldur en að finna ekki neitt.
En í rauninni er kannski ekki um neitt úrræðaleysi að ræða þegar hlutirnir eru ekki lengur í manns eigin höndum. Nú er væntanlega einhver annar að fara yfir prófið þitt og sýsla eitthvað með það. Þú ert búin að þessu og ef ég þekki þig rétt hefurðu gert þitt allra besta á þessu prófi. Meira er víst ekki hægt að gera nema eitthvað sem ekki er í mannlegum mætti að minnsta kosti ekki ef þú átt ekki fullt af pening til að múta einhverjum til að fá að breyta prófinu eða kaupa þér skor. Kannski ertu bara eins og við myndum segja fyrir norðan "punkteruð" en þó búin að gera allt sem í þínu valdi stendur. Þá ert þú með hreint borð og ekkert sem þú þarft að ráða úr meira. Þá er nú ekkert úrræðaleysi heldur. Útkoman er ekki í þínum höndum eftir að prófið er farið frá þér.
Eða hvað?
Ef maður á trú þá veit maður að allt er í þess höndum sem kann öll ráð- ef ekki þá getur maður samt trúað því að allt fari á besta veg
Ef maður á trú er hægt að biðja Guð sinn um sinnisró til að sætta sig við það sem maður fær ekki breytt -nú ef maður á hana ekki má gera það bara samt.
GRE GRE GRETTIR Sig og bara hlær.
Sko ekki var þetta nú neitt mál.
Jæja þá er þetta session búið og enginn veit hvort það gerði nokkuð gagn nema fyrir mig sem allavegana þurti ekki rétt á meðan að hugsa um eigið sinnisleysi og flatan hug.
Kærar kveðjur.

5 ummæli:

Heiða María sagði...

Takk kærlega Sigrúnsif fyrir þessa skemmtilegu og umhugsunarverðu færslu. Ég var svo svakalega þreytt í gær að ég sofnaði eitthvað um áttaleytið í gærkvöldi og er nú vöknuð á ný (hálffimm um nótt). Er búin að hrista af mér mesta slenið og þessi færsla hjálpaði svo sannarlega til :D

Svo vil ég koma því á framfæri að ég er hjartanlega sammála þessu hjá þér: "það er skárra að hafa það verra ef að skárra þýðir að maður hafi það ekki yfir höfuð."

Bestu þakkir fyrir að hugsa til mín og láttu þér sjálfri líða vel með þínum eigin ráðum :) Svo þurfum við að fara að hafa saumaklúbb, hvað varð um hann?

Sigga sagði...

Mér finnst fréttapælingin líka soldið skemmtileg. Maður sér þetta í öðru ljósi, það eiga nebbnilega allir bátt einhvern tíman, hvað er svona spes við mín vandamál?? Nema nottla að mikilvægasta manneskjan í mínu lífi er að glíma við þau :)

En hver ætlar að halda næsta Lordosis??? Væri vinsælt ef væri ekki haldið 21.-29. mars því þá verð ég í Barcelona og París :) jeeeeei!!!!!!

Vaka sagði...

Hugljúft og fagurt Sigrún mín.
Þessi aðferð með fréttirnar bætir hins vegar ekki líf mitt eins og er þar sem að mín vandamál væru jú sennilega birtingarhæf í Séð og heyrt -OG HVERSU SORGLEGT ER ÞAÐ?!!!

P.S. Heiða mín ég get vel haft samúð með því að hafa áhyggjur og líða illa yfir einhverju en ég mun seint hafa áhyggjur af þér námslega séð.
Auk þess er það mín reynsla að maður er yfileitt stressaður yfir því sem maður lagði sig fram við. Hvenar hefur maður t.d. haft engar áhyggjur af einhverju sem maður lagði sig fram við og skiptir mann máli?

Jón Grétar sagði...

Mér líður nú ekkert betur þó svo að öðrum líði verr...

Andri Fannar sagði...

ég held að sigrún skilji ekki intentionality. Eða var þetta andlegt ofbeldi?