miðvikudagur, apríl 12, 2006

Frakklandspistill

Gott fólk, mér fannst kominn tími á smá Frakklandspistil. Hvað dettur ykkur í hug þegar þið hugsið um Frakka? Ungan mann með flaksandi trefil í mótmælagöngu, í annarri hendi rauðvínsflaska og í hinni baguette og Rimbaud í brjóstvasanum? Eins og títt er með staðalmyndir eru þær yfirleitt byggðar á einhverju – þannig gæti þessi lýsing átt við ótal Frakka. Síðan ég kom til Frakklands hef ég hins vegar verið hissa á því hvað mótmælahefðin er ótrúlega sterk hérna. Eins og þið vitið kannski hafa franskir háskólanemendur (og ungt fólk almennt) verið með stöðugar mótmælaaðgerðir sl. mánuð. Ástæðan er sú að ríkisstjórnin vildi setja lög sem gera vinnuveitendum kleift að segja fyrirvaralaust upp ungu fólki fyrstu tvö árin sem það er úti á vinnumarkaðnum í fullu starfi, án ástæðu. Það er í raun verið að taka allt öryggi og réttindi af fólki. Ríkisstjórnin heldur því hins vegar fram að hún sé að gera ungu fólki greiða þar sem þetta hvetji vinnuveitendur til að ráða ungt fólki. Þessi röksemdafærsla kolfellur að mati meirihluta frönsku þjóðarinnar (og mínu mati). Nær allir háskólar hafa verið lokaðir allan þennan tíma, keðjur fyrir hurðum og stúdentar standa vörð um skólana til að enginn fari inn. Nánast daglega voru göngur, miðum dreift, mótmælasetur osfrv. Og franskir vinir okkar útskýrðu hvernig kosið var um verkfallið á nokkurra daga fresti, nefndir skipaðar af stúdentum, fólk hittist til að ræða málin og svo mætti lengi telja.

Nú mætti vel gera grín að þessari mótmælaáráttu hjá Frökkunum – þetta eru ekki einu mótmælin sem ég hef séð á þessum stutta tíma mínum hérna: Mótmæli bifhjólaeigenda (við eigum rétt á götunum??), mótmæli hundaeigenda, mótmæli lestarstarfsfólks...Ein af fyrstu setningunum sem ég lærði af lingúafóninum mínum var t.d. “le métro est en greve mais il y a des taxis” (neðanjarðarlestin er í verkfalli en það eru leigubílar hér). Staðreyndin er samt sú að nú hefur ríkisstjórnin gefið eftir og ætlar að draga þennan hluta laganna tilbaka. Og ég velti fyrir mér hvort að stúdentar á Íslandi hefðu sýnt þennan lit og mótmælt svona kröftuglega ef lögin hefðu átt við um okkur? Ég hugsa ekki og verð á endanum að taka ofan af fyrir Frökkunum.

12 ummæli:

Heiða María sagði...

Ég er sammála þér í því að við Íslendingar látum of mikið yfir okkur ganga. Stundum erum við of ligeglad. Það getur auðvitað verið kostur líka.

Lilja sagði...

Nei, Íslendingar myndu aldrei láta draga sig í verkfall vegna lagasetningar. Við tölum kannski illa um það (eins og var gert í fjölmiðlafrumvarpinu á sínum tíma) en við færum aldrei í verkfall, því miður. Lítum bara á nýlegt verkfall ómenntaðs fólk í umönnunargeiranum. Það fór í verkfall í tvo daga, en fór svo aftur að vinna. Á það að koma einhverju til skila? Einnig man ég eftir umræðu þar sem sagt var að ef bensínverð færi yfir ákveðið hámark væri efnt til verkfalls, gott ef það var ekki í Frakklandi. Íslendingar yppta bara öxlum, verða pirraðir, EN GERA ALDREI NEITT. Þetta finnst mér alltof algengt, og franskir námsmenn eiga heiður skilið fyrir að ná að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Ég vildi óska að við værum svona framtakssöm þjóð.

baldur sagði...

Gaman að heyra í þér Ella mín. Líður þér ekki annars vel.
Til hamingju með að vera komin inn í CUNY!

Ella Björt sagði...

Ja, ég veit ekki hvort að það sé nokkurn tíma kostur að láta einhliða ákvarðanir stjórnvalda yfir sig ganga. Þetta er spurning um að taka virkan þátt í því að móta samfélagið sitt og minnast þess að lýðræði er ekki bara innantómt hugtak.

Annars er ég eins og blóm í eggi hérna, ég hef nóg af verkefnum en hef samt náð að vera hreyfanleg með fartölvuna mína - ég er t.d. að fara til Munchen að heimsækja bróður minn um páskana.

Heiða María sagði...

Ég var nú ekki að meina það þannig, að vera ligeglad getur verið gott í þeim tilfellum þar sem maður þarf bara að taka erfiðleikum og hugsa að "þetta reddist".

Sigga sagði...

Ég var samt í Paris e-n voða verkfallsdag, en tók eiginlega ekki eftir neinu...
Mér skildist líka á Söndru vinkonu, sem hefur dvalist langdvölum í Frakklandi, að þetta sé árstíðarbundið. Núna er s.s. verkfallatíminn. Skil það vel, vor í lofti og allt að lifna við, ekki mundi ég nenna að vera í mótmælagöngum í snjókomu!!! En það gæti reyndar verið einn af göllunum hérlendis. Fólk leggur ekki útí kuldann til að mótmæla... Væri samt ekki úr vegi að reyna þá að nýta góðviðrisdagana á sumrin og mótmæla öllu sem maður vildi mótmæla um veturinn...

Guðfinna alda sagði...

Ég er sammála..Við mættum taka okkur þá til fyrirmyndar og gera meira en tuða hvert í okkar horni þegar traðkað er á okkur...t.d sprengdu þeir einu sinni upp McDonalds stað sem kom í smábæ í Frakklandi..Þeir mótmæltu komu hans frá upphafi og sprengdu hann svo bara upp eina nóttina þar sem ekki var hlustað á mótmæli þeirra! Þó ég styðji kannski ekki svona öfgafull mótmæli þá finnst mér aðdáunarvert hvað þeir láta í sér heyra ef þeir eru óánægðir..Nú er bensínverð á íslandi í hámarki, en hefur einhver beitt sér opinberlega gegn því eða hefur akstur minnkað? Neibb það er of kalt úti til að mótmæla!!

baldur sagði...

Ok. Guðfinna mín, þótt það sé ástæða til að láta í sér heyra þegar bensínverð er orðið óeðlilegt og fáránleg löggjöf hefur litið dagsins ljós, þá er ég nú ekki alveg á því að við eigum að taka okkur til fyrirmyndar fólk sem mótmælir frjálsum viðskiptum. Mcdonalds á náttúrulega bara að fá að vera þarna ef eftirspurnin er til staðar. Ef ekki hefði þetta blessaða útibú hröklast burtu hvort sem er.

Og ég er ekki að tala um að það sé óeðlilegt að sprengja húsið í loft upp, það er svo sjálfgefið að það þarf ekki að tala um það. Ég er að tala um að að það sé óeðlilegt að mótmæla því yfir höfuð, að veitingahúsakeðja planti útibúi þarna, með öðrum aðferðum en þeim að borða ekki hamborgarana þeirra.

Guðfinna sagði...

hehe.. Baldur ég sagði að þetta hefðu verið full harkaleg mótmæli /(vægast sagt :P) en pointið mitt með þessu er að þeir láta ekki vaða yfir sig :)

baldur sagði...

Það gerði Hitler ekki heldur. Það eru samt fæstir sammála um að hans málstaður hafi verið nálægt því eðlilegur. Ég er að tala um að geta ekki greint á milli þess sem sem á ekki að mótmæla yfir höfuð með öðrum hætti en að taka ekki þátt í því, og hins sem er eðlilegt að mótmæla skipulega, hvort sem það er gert með mótmælagöngum, fánum og pappaspjöldum á priki, sem væru eðlilegar aðferðir af (hugsanlega) eðlilegu tilefni, eða með hryðjuverkum, sem væru óeðlilegar aðferðir af (hugsanlega) eðlilegu tilefni. Ég skil pointið ykkar og er alveg sammála, vildi bara benda á þessa vangetu til aðgreiningar fyrst þú nefndir þetta McDonals dæmi.

Guðfinna sagði...

hehe...Gæti verið að andúð mín á McDonalds hafi áhrif á viðhorf mitt til þessa atviks ;) híhí

Vaka sagði...

Aðeins um mótmæli og sprengjuhegðun Íslendinga...

Íslendingar hafa ekki alltaf setið aðgerða- né sprengjulausir heima. Hér eru tvö dæmi:

31. des. 1959 til 1. jan. 1960
Í ágúst 1959 var bronsstyttu af hafmeyju eftir Nínu Sæmundsdóttur komið fyrir á Reykjavíkurtjörn. Sumum þótti þessi stytta ekki við hæfi þar sem hún svipaði til þeirrar dönsku, enda ekki svo langt síðan lýðveldi var stofnað á Íslandi (1944). Aðfaranótt nýársdags 1960 var syttan sprengd en ekki er enn vitað hverjir voru þar að verki. Síðar birtu þeir þó grein (ef mig minnir rétt) þess efnis að verknaðurinn beindist ekki að listakonunni eða hennar litst.

25. ágúst 1970
Landeigendur í Mývatnssveit sprengdu stíflu Laxárvirkjunar.

Ef þið viljið betri lýsingu á þessum atburði þá fann ég þessa síðu:
http://www.sellan.is/index.php?Itemid=0&id=760&option=com_content&task=view
en dómurinn er of gamall til að hægt sé að fletta honum upp á netinu.

Góðar stundir