þriðjudagur, september 26, 2006

Íslandsmeistaramót Nýhil í ömurlegri ljóðlist

Ég var að gúgla hann Karl Ægi Karlsson, svona eins og maður gerir stundum. Hann er sem sagt gaurinn sem heldur fyrirlesturinn í svefnrannsóknum á morgun. Rakst þá á þetta ágæta ljóð hans:

Ort við andlát Derrída:

Derrída.

Dáinn Derrída
Dáinn Derrídí

Og öll franskan
sem skil ekkert í

Dáinn, nema hvað
Og ekkert póstmódern við það.

Karl Ægir Karlsson


Sjá nánar: Nýhil.

mánudagur, september 25, 2006

Óvænt ánægja

Ég fékk senda afskaplega skemmtilega film noir teikningu í dag, fékk hana gegnum lúguna frá mér frá Santa Barbara í Kaliforníu. Ég var að sjálfsögðu sérlega ánægð en skildi aftur á móti hvorki upp né niður í því hvers vegna ég hefði fengið hana í pósti. Allt í einu rifjaðist upp fyrir mér þessi snilldar síða: Drawings by Mail. Fyrir henni stendur Mike nokkur Godwin, framhaldsnemi í myndlist, og virðist hann stunda það að senda teikningar til ókunnugs fólks sem fyllir rétt inn í reitina á síðunni hans. Ég hafði sem sagt fyrir nokkrum mánuðum síðan beðið hann um að teikna handa mér film noir scene, og hann hreinlega gerði það! Alveg hreint makalaust, að nenna að senda fólki víðs vegar um heiminn teikningar af því sem það vill. Frábært framtak. Ég er búin að reyna að senda honum tölvupóst með kærum þökkum og ég vona að þær komist til skila.

sunnudagur, september 24, 2006

Margur verður af aurum APA

Það hlýtur allavega að vera erfitt að fá styrk hjá þeim :-P

Taugafræðilegur grunnur svefns

Ég leyfi mér að klippa og líma inn texta sem ég fékk í HÍ-starf póstinum:

Málstofa sálfræðiskorar verður haldin miðvikudaginn 27. september kl. 12.20 - 13.15 í stofu 201 í Odda.

Karl Ægir Karlsson flytur erindið „The Neural Substrates of Sleep in Infant Rats“ sem fjallar um taugafræðilegar orsakir svefns hjá nýburum.

Taugafræðilegar orsakir svefns hjá nýburum hafa verið umdeildar og því hefur meðal annars verið haldið fram að svefn nýbura eigi sér aðrar taugafræðilegar orsakir en svefn fullorðinna. Í fyrirlestrinum verður sagt frá aðferðum sem voru þróaðar í þeim tilgangi að hægt væri að beita hefðbundnum aðferðum taugalífeðlisfræði á nýfædd tilraunadýr og bera saman og raunprófa mismunandi tilgátur um nýburasvefn. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir tilgangi og niðurstöðu rannsóknanna ásamt fyrirhuguðum rannsóknum.

Karl lauk BA gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1999 og doktorsgráðu í taugavísindum frá sálfræðideild University of Iowa árið 2005. Að námi loknu fékkst Karl við rannsóknir á taugalífeðlisfræði svefns við University of California Los Angeles og var ráðinn aðjúnkt við Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík árið 2006.

Málstofan er öllum opin.

fimmtudagur, september 21, 2006

miðvikudagur, september 20, 2006

International Fulbright Science and Technology Award

Ég held að þetta sé ekkert leyndó, svo ég hlýt að mega segja frá þessu. Ég hef verið valin sem fulltrúi Íslands til að keppa um alþjóðlega styrkinn International Fulbright Science and Technology Award. Þetta þýðir ALLS EKKI að ég sé búin að tryggja mér styrkinn, bara að ég fái að "vera með". En gaman samt :) Geri mér engar háleitar hugmyndir. Ætla svo líka að sækja um "venjulega" Fulbrightstyrkinn sem eru meiri líkur á að ég fái. Síðan ætla ég líka að sækja um fleiri styrki, t.d. Thor Thors styrkinn.

A grand unified theory of psychology?

Ég vil benda ykkur á grein um það sem höfundur kallar Tree of Knowledge. Ég hef ekki lesið þetta allt í þaula, en kenningin er nokkuð áhugaverð, þó ekki væri nema fyrir þær sakir einar að reyna að samþætta mismunandi sálfræðiskóla sem hingað til hafa þróast svo að segja óháð hvor öðrum.

mánudagur, september 18, 2006

Uppáhalds vefsíðurnar

Answers.com: Svör við öllu. Sérstaklega góð ensk orðabók.

Wikipedia: Ef maður finnur ekki svörin getur maður skrifað þau sjálf.

Vísindavefurinn: Verður maður ekki að hafa hann með? ;)

Vefpóstur HÍ: Ég skoða póstinn minn hundrað milljón sinnum á dag.


Last.fm
: Frá Bollywood til Bob Dylan, maður finnur allt hér.

Amazon.com: Úúú, bækur :O


Cognitive Daily
: Sérlega skemmtilegt vísindablogg.

Piled Higher and Deeper: Háklassa tímaeyðsla.

sunnudagur, september 17, 2006

Er einhver með Skype?

Var að finna þetta forrit, er stórsniðugt. Ef þið eruð með Skype megið þið bæta mér við, ég heiti heidamariasig.

miðvikudagur, september 13, 2006

Fortuna - hugsanarannsóknir ehf

Er hægt að ímynda sér tilgerðarlegra nafn á fyrirtæki?

Boggi benti mér á þessa síðu þar sem fyrirtækið reynir að komast að ómeðvituðum hugsunum neytenda í markaðsrannsóknum. Á vef fyrirtækisins er að finna grein eftir Newton nokkurn Holt þar sem ZMET aðferðin við að komast að ómeðvituðum löngunum fólks í tannkrem o.fl., ásamt hugmyndafræðinni að baki aðferðinni er reifuð. Stórkostleg lesning. En skoðið fyrst eftirfarandi samantekt þeirra hjá fortúnu.

Um ZMET-aðferðina, ómeðvitaðar hugsanir og aðrar aðferðir markaðsrannsókna:

Hefðbundnar aðferðir hafa til þessa aðeins náð að greina það sem fer fram í hinni meðvituðu hugsunum - ekki ómeðvituðum hugsunum, þar sem smekkur, langanir, þrár og hegðun er ákvörðuð í sífellu.

Skoðanakannanir, spurningalistar, "fókus-grúppur", ýmis viðtöl o.fl. eru hefðbundnar aðferðir markaðsrannsókna.

Notum hefðbundnar aðferðir þegar:
a) Auðveldlega er hægt að framkalla svör (á 2-3 sek.)
sem eru óumdeilanleg í hugum viðmælenda.
b) Svör eru ekki háð mörgum atriðum.
c) Svör tengjast beinum staðreyndum t.d.
fortíðarstaðreyndum.

ZMET notar aðrar aðferðir til að komast að ómeðvituðum hugsunum. Aðalþáttur aðferðafræðinnar gengur í grófum dráttum út á að láta þátttakendur benda á myndir sem lýsa hugsunum þeirra til þess sem er til skoðunnar hverju sinni.
Notum ZMET þegar:
a) Svör eru háð smekk, löngun fólks og mannlegum eiginleikum.
b) Spurt er að einhverju sem háð er tilteknum
aðstæðum í framtíðinni.
c) Svör eru háð innbyrðis margvíslegum þáttum.

Niðurstaðan er því sú að ZMET er nauðsynlegt að nota þegar viðskiptavinir eru spurðir um þarfir, þrár, smekk, kauphegðan o.fl. sem lýtur að því hvernig fólk hugsar um vörur og þjónustu.

Kostirnir við að nota ZMET eru því ýmsir:

a) Hraðvirk aðferð.
b) Er mun nákvæmari en aðrar aðferðir markaðsrannsókna.
c) Les ómeðvitaðar hugsanir sem
erfitt er að nálgast með öðrum aðferðum.

Ok. Aðeins um þessa svo kölluðu kosti ZMET.

a) Nei, þetta er tímafrekara en spurningakönnun.
b) Hefur forúna skilgreint í hverju nákvæmni niðurstaðna felst? Er ekki kauphegðun fólks hinn endanlegi mælikvarði á hvort niðurstöðurnar voru nógu nákvæmar til að byggja markaðsherferð á.
c) NEI!

Hugmyndafræðin gengur í grófum dráttum út á að:

1) Þetta er þverfagleg nálgun þar sem cognitive neuroscience er tekið með í reikninginn. Cognitive neuroscientistar komust nefnilega að því á síðasta áratug að aðeins 5% af öllum okkar hugarferlum eru meðvituð. Þess vegna þarf að nota frávarpspróf í markaðsrannsóknum til að komast að hinum 95% af hugsunum okkar. Mér sýnist þeir halda í alvöru að cognitive neuroscientistar og psychoanalistar leggi sama skilning í ómeðvitund.

2) Við hugsum ekki bara í orðum heldur í myndum líka. Þess vegna virka spurningakannir illa. Þær eru nefnilega í orðum. Í staðinn þarf að nota frávarpspróf þar sem fólk tjáir sig með því að benda á myndir. En svo þarf auðvitað að þýða myndirnar í orð. Það er gert með því að tala um afhverju myndirnar vekja upp þessar tilfinningar. Þá erum við sem sagt að þýða myndirnar yfir í orð og ég fæ ekki betur séð en það að tala um myndirnar séu nú einfaldlega gamla góða aðferðin við að tjá það sem þegar var á yfirborðinu í huganum. So much for unconscious thoughts.

aðeins að lokum.

Hafið þið einhvern tímann fengið ómeðvitaða löngun í eitthvað þegar þið voruð í búðinn og þurft svo að líta í innkaupapokann þegar þið komuð heim til að komast að því hvað ykkur langaði í? Fortúna virðist halda að þetta gerum við öll í 95% þeirra tilfella þegar við látum eitthvað í innkaupakörfuna okkar. Djöfull væri gaman að fylgjast með fólki í bónus ef sú væri raunin. Reynið að sjá það fyrir ykkur.

Jæja nú er ég búinn að blogga meir en Heiða hefur gert síðust 6 mánuðina. Lifið heil.

þriðjudagur, september 12, 2006

Vafasöm fullyrðing

Ég fékk inn um lúguna til mín blað sem kallast Heilsufréttir. Það er stútfullt af fæðubótarefnum, blómadropum, nálastungum, grasalæknum og fæðuþerapistum.

Í blaðinu segir Hallgrímur Magnússon læknir:
Hægt er að lækna flesta þá sjúkdóma sem við þekkjum með complimentary læknisfræði en það gerir oft þá kröfu til sjúklingsins að hann verður að hætta að sækja í þá hefðbundnu læknisfræði sem hann hefur oftast leitað í.


Þetta finnst mér vægast sagt vafasöm fullyrðing, og jafnvel hættuleg, en dæmi nú hver fyrir sig.

Vísó skvísó

Vorum við ekki að ræða um get-to-gether næsta föstudag ef það væri vísindaferð þá?
Allavega þá var Anima að senda mér þetta í pósti


Fyrsta vísindaferðin verður á föstudaginn 15.september.

Farið verður í Landsbankann og verður þetta án efa mjög vegleg ferð. Með
okkur í ferðinni verður Mímir, félag íslenskunema. Fjöldi sálfræðinema sem
komast með er 50. Eftir ferðina verður farið á Pravda þar sem kosið verður
í hin ýmsu embætti animu.

Skráning fyrir Animu-meðlimi hefst í dag, þriðjudag, kl 19 á anima.hi.is.
Þeir sem enn hafa ekki greitt félagsgjöld geta skráð sig eftir kl 19 á
miðvikudag, eða bara borgað félagsgjöldin og skráð sig í dag ;0)

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest á föstudag
Kveðja
Stjórnin


Eru þið með?

sunnudagur, september 10, 2006

miðvikudagur, september 06, 2006

Stjórnarfundur 6.okt !

Ákveðið hefur verið að boða til síðbúins stjórnarfundar að kvöldi föstudagsins 6.okt n.k.
Skyldumæting fyrir stjórnarmenn, velunnara gullaldarstjórnar animu og rottur okkar tíma.
Galopin og fljótandi dagskrá, commentið tillögur!

Takið kvöldið frá, nánar síðar......

Kjartan Formaður

þriðjudagur, september 05, 2006

Ó mæ

Heyrði í Kára nokkrum Eyþórssyni í útvarpinu um daginn, sem er víst með reglulegt innlegg í einhverjum þættinum, Ísland í bítið minnir mig. Mér fannst hann ansi mikill froðusnakkari og ákvað því að fletta honum upp á netinu.

Það er ekkert smá steypa sem maðurinn er menntaður. Hann er með svaka gráður: CMH, CHYP, PNLP, MPNLP, sem segir mér bara gjörsamlega ekki neitt. Svo fer maður að skoða betur:
Kári stundaði nám við THE PROUDFOOT SCHOOL OF CLINICAL HYPNOSIS AND PSYCHOTHERAPY á árunum 1996-1998 þar sem hann lærði dáleiðslur (CMH), dáleiðslumeðferðir (CHYP), undirmeðvitundarfræði (PNLP), fjölskyldumeðferð og taugatungumál (MPNLP), Gestalt meðferð og fl.

Afsakið, en er hægt að vera menntaður í fleiri furðufræðum? Nema kannski að frátalinni DNA-heilun...

Hressandi hroki

Ég las ansi hressandi pistil hjá honum Orra um allt sem fer í taugarnar á honum: Bowen-tækni, reiki, vitræn hönnun, sjálfshjálparbækur o.s.frv.

Mikið var þetta yndisleg lesning. Ég tek heilshugar undir með honum að fólk sem finnst allt svo frábært sé óþolandi. Það er ekki allt frábært. Það er aftur á móti margt óþolandi. Að minnsta kosti ætti fólk ekki að vera skoðunarlaust. Það er nett ógeð, finnst mér.

Ég sakna gamla góða sálfræðihrokans. Hlakka til að fara í skóla og vona að ég finni einhverja hressandi hrokagikki. Svona smá.

Töff!


Abigail Gunnarsson bókmenntafræðingur, bókasafnsfræðingur og femínisti.

Imidj körtesí: Gestur's blÖg.

laugardagur, september 02, 2006

Ótrúlega sorglegur fréttaflutningur af vísindum

Ég rakst á þessa mjög svo sorglegu frétt á bloggrúnti mínum. Verið var að segja frá greininni Neural correlates of a mystical experience in Carmelite nuns sem er í sjálfu sér mjög fyndið. Settu einhverjar nunnur í heilaskanna á meðan þær voru í tengslum við Guð og komust að því að fullt af heilastöðvum voru virkar. Greinarhöfundar segja sjálfir:
These results suggest that mystical experiences are mediated by several brain regions and systems.

Og hvernig er þessu svo slegið fram í íslenskum fjölmiðlum?
Ný rannsókn: Trú á æðri máttarvöld býr ekki í heilanum

Þetta er svo sorglega rangt að mig langar til að gráta.