föstudagur, janúar 23, 2015

Að vera fullorðin kjallararotta

Þvílík makalaus, ljómandi gleði að Heiða skyldi setja þessa síðu á Fésið. Ég var búin að steingleyma því að einu sinni vorum við ung, peningalaus og víkingar alheimsins í bjórleit og þurftum að deila heilagimsteinum okkar með okkur sjálfum og hinu ævarandi interneti. Æ, æ. En mikið er gott að við gerðum það samt, svo við getum litið til baka og fagnað því að hafa verið hluti af lífi hvers annars.

Ég er líklegast ein af þeim sem hef misst mest samband við ykkur öll og þykir mér það miður. Það var mér því áfall að heyra af honum Andra okkar og hinu sviplega fráfalli fyrir tveimur vikum síðan. Andri verður mér alltaf minnisstæður sem hávaxið, krullhært gáfumenni sem kveikti í eldhúsinu sínu með stolnum kjúkling og verndarmaður álfsins. Í seinni tíð hef ég fylgst með honum og fjölskyldunni gegnum Facebook og er búin að vera stolt af honum í Zurich sem sérstakur framlínumaður okkar rottnanna í hinum stóra heimi.

Nú til dags erum við öll dreifð um heiminn og örugglega hætt að velta fyrir okkur þáttagreiningu og framskeini, sálfræðin vikin fyrir viðskiptum og daglegu amstri en ég vona að kjallararottuhjartað slái enn. Ef þið nennið væri gaman að heyra hvað þið eruð öll og jafnvel að heyra minninar um Andra ef þið eruð ekki orðin leið á því að deila þeim.

Ég hlakka og vonast til að heyra í ykkur.

Kær kveðja
Lúxemborgar-Lilja