föstudagur, apríl 29, 2005

Ég hef áhyggjur af Heiðu

Þetta er Kjartan sem skrifar, mér var svo órótt að ég fékk að nota tölvuna hjá Brynjólfi:
Heiða mín, ég vona að það allt í lagi með þig. Að allt gangi vel hjá þér og Birni, og að þú sért sátt við lífið og hvert þú ert að stefna.
Mig dreymdi svo flókinn draum um þig í nótt, þú varst farin frá Birni og búin að hefja samband með öðrum manni. Þú virtist reyndar vera ánægð með hann, en mér finnst þú þurfa að hugsa þetta vel, okkur hinum finnst þetta svo skrítið. Gunnar Eyjólfsson er svo mikið eldri en þú. Þó þú sérð þroskuð stelpa og finnist þið eiga margt sameiginlegt þá þarftu að hugsa um framtíðina.
Ég vona að þú náir aftur sambandi við sjálfa þig.

Kjartan

Spurt og svarað

Í umræðum um pistil Lilju komu fram ýmsar vangaveltur um ástæður einhleypni minnar. Ég hef því ákveðið að skýra málið nánar fyrir ykkur. Hér eftir fer því stutt lýsing á því hvernig stefnumótafælni (date phobia) skilyrðist. Í þessu samhengi ætla ég að nýta mér lífseigar kennsluaðferðir kristninnar; taka mér ekki minni fyrirmynd en Jesú og skýra málið með dæmisögum:

Topp fimm date senur:
- handahófskennd röðun

1) Laukhringurinn.
Ef þið prófið að festa stóran laukhring milli framtannana gætuð þið komast að því að það er mjög erfitt að ná honum pent burt með lokaðan munn. Það sem verra er, er að það er erfitt að ná honum burt með puttunum, nöglunu, gafflinum, hnífnum og tannstönglum.
Þetta var svo sem ekki svo hræðilegt þar sem ég taldi mig vera úti að borða með samkynhneigðum vini mínum... það reyndist ekki vera sami skilningur og hann hafði lagt í þetta matarboð. Sam-, gagn-, tví- hvað? ...bara kynhneigður.

2) Blóðþrýstingur.
Það vill stundum fylgja þeim sem hafa heldur lágan blóðþrýsting að það getur liðið yfir þá að litlu tilefni. Þegar þetta gerist á miðjum veitingarstað fara örlög manns eftir því hvernig viðstaddir túlka og bregðast við aðstæðum. Í mínu tilfelli var þetta eftirfarandi.
a) Túlkun viðstaddra: manneskjan er drukkin.
b) Viðbrögð viðstaddra: bera hana út.
c) Afleiðnig: ranka við sér á gangstéttinni.

3) XX litningaparið: kostir og gallar.
Oft er talað um þann rómaða hæfileika kvenna að geta gert margt í einu. Þetta virðist hins vegar ekki vera óbrigðult náttúrulögmál. Til er fólk sem hefur XX litningapar en er gjörsamlega ófært um þetta, og ég er lifandi dæmi þess. Þegar ég horfi á video eða fer í bíó er fátt annað til en ég og myndin. Af þeim orsökum er ég sérstaklega ólíklega til að veita öðrum umhverfisáreitum nógu mikla athygli til þess að horfa í átt að þeim og vita hvað ég er að gera. Þegar að maðurinn sem fjármagnaði bíóferðina bauð mér sopa af gosinu sínu gerðist því eftirfarandi: Tók sopa, rétti honum flöskuna og slengdi hendinn niður á það sem að ég hélt að væri bríkin mill sætanna. Ég lenti hins vegar á svæði sem veitti töluvert minna viðnám.
Hvað get ég sagt ég hef þó þann eigileika kvenna að hafa lakari rúmskynjun.

4) Hópefli.
Það er undarleg tilfinning að finnast heill veitingarstaður vera að horfa á sig. Í fyrstu reynir maður að rifja upp hvenar á æfinn er algengast að konur byrji að sýna einkenni paranoid scizophreniu. Svo getur maður ekki annað en deilt þessari áhorfsupplifun með hinum aðilanum: „Mér finnst eins og allir séu að horfa á mig.“ Svar: „Já ég veit, þetta eru vinir mínir. Ég vann einu sinni hérna.“

5) Rödd að ofan.
Þegar valinn er matur á deiti þarf að huga að hlutum eins og er þetta gott, er hægt að borða þetta sæmilega snyrtilega, mun ég hella þessu niður o.fl. Við þessar aðstæður grúir maður sig ofan í matseðilinn til þess að finna bestu lausnina. Þar af leiðandi tekur maður ekki endileg eftir því þegar að þjónninn labbar að borðinu, tekur í raun ekkert eftir honum fyrr en hann stendur yfir manni og ávarpar mann (minni á lið 3). Merkilega kunnugleg rödd barst að ofan. Humm... hljómar eins og fyrrverandi, reyndar alveg nákvæmlega eins...

Þetta ætti að auka skilning á þeirri skelfingu sem getur átt sér stað þegar ég fer út.

...og hver er besta forspá um hegðun?

Vökurottan

laugardagur, apríl 23, 2005

Búin að finna titil á BA-ritgerðina mína

Beep beep boop: A new torture technique in psychological warfare.

Skrifið í Gestabókina

Kjallararottur er ein vinsælasta bloggsíðan í heimi - en gestir hennar skrifa ekki í gestabókina.
Skrifið í gestabókina!

Vitlausa ég

Eftir miklar vangaveltur, tilraunir og mistök, hef ég komist að niðurstöðu um hvers vegna í ósköpunum ég næ mér ekki í karlmann. Ég er of heiðarleg!
Já, elskurnar mínar, ég, annáluð “speþial person” gerði enn eitt axarskaftið dag þegar ég lét strák í vinnunni vita af áhuga mínum með því að spyrja beint út hvort hann væri í sambandi (ég er að vísu búin að spjalla við hann nokkrum sinnum, og spjallaði við hann í smá stund áður en ég spurði að þessu, en samt...). Hann er reyndar ekki í vinnunni minni, heldur öryggisvörður, og er alveg rosalega flottur. Hann kom eins og riddarinn á hvíta hestinum í dag og bjargaði mér frá tveimur ótrúlega fullum mönnum sem komu í vinnuna í dag (það er nú einu sinni hans starf) og ég launaði það með þessum hætti (þ.e. þegar hann kom til mín á kassann 25 mínútum síðar). Og til þess að bæta á ástandið, þá sagði ég upphátt, þar sem hann heyrði líklega til mín (hann var bak við vegg að fylgja fullu köllunum út á meðan ég var hinum megin við vegginn), 20 mínútum áður en ég spurði um sambandsástand hans, að mér fyndist hann ótrúlega sætur. Ætlar þessi andsk*%$#& óheppni mín að segja eitthvað vitlaust í kolvitlausum aðstæðum aldrei að taka enda??
Það er sálfræðikenning sem segir til um að ef maður sé hræddur þá er maður þeim mun líklegri til þess að bjóða aðlaðandi manneskju út sem tók þátt í þessum aðstæðum með manni og ég er víst gangandi sönnun þessarar kenningar í dag. Æm só foking speþial!! Ég er að vísu búin að reyna að hætta þessu, og hélt að ég væri hætt þessu, en NEIIII, ég verð að gera þetta einu sinni enn!
Að vísu brosti hann bara og sagði að hann væri í sambandi (*fjúkk* yfir viðbrögðunum) en þegar ég var að segja fólki frá þessu á eftir þá leit það á mig eins og ég væri einhverf og hefði gaman af því að láta slá mér í vegginn. Ég fékk bæði “Vá, hvað þú ert frökk! Ég hefði aldrei þorað þessu!” (frá stelpu) og “Nei, nei, nei, svona gerir maður ekki!” (frá strák). Ég fékk líka “Þá veit hann bara hvar hann hefur þig!” (frá strák).
Ég veit að strákar fíla þetta ekki, að ef maður er svona heiðarlegur, snúa þeir sig úr hálsliðnum á meðan þeir eru að snúa sér við til þess að geta hlaupið í gegnum veggi til þess að forðast mann OG SAMT GERI ÉG ÞETTA!! Ég heyri næstum því viðbrögðin hjá öllum vinum mínum og held að ég lýsi mig sem formlegan hálfvita í samskiptum við karlmenn sem mér finnst sætir. Svo get ég ekki einu sinni þagað yfir þessum hálfvitagangi.
Það þarf ekki að skamma mig fyrir þetta, ég er nú þegar búin að skamma mig svo mikið fyrir þessa hegðun að það þarf enginn annar að gera það. Enda var ég orðin svo pirruð í lok dagsins að ég var farin að telja upp að tíu áður en ég rétti fólki klinkið sitt, bara vegna þess að það spurði um auka poka. Ég held meira að segja að ef einhver hefði ekki haft skírteini þegar ég spurði um það, þá hefði sá sami getað átt von á því að ég hefði öskrað á hann að drulla sér út.
Ég ætla ekki að tíunda hin skiptin sem ég hef gert þetta, en í öll skiptin hef ég endað með sárt ennið og móral sem Milosevich hefði skammast sín fyrir (þ.e. ef hann hefði samvisku).
Nú er ég að velta fyrir mér hvernig atferlisstefnan útskýrir þetta, því þetta er svo sannarlega EKKI styrkt hegðun. Þetta getur ekki verið slokknunartoppur þar sem ég geri þetta ekki oft, og þetta getur ekki heldur verið hegðunarleg stökkbreyting, þar sem ég geri mig vanalega að fífli á sama hátt (þ.e. of heiðarleg). Ég hef sem sagt lært tvennt í dag, annars vegar að láta af þessum ofheiðarleik mínu, og hins vegar að atferlisstefnan getur ekki útskýrt suma hegðun. Húrra fyrir mér, eða þannig!
Lilja - á leiðinni í rauðvínsflöskuna

föstudagur, apríl 22, 2005

Innflutningspartý sett á áætlun

Sælar, elskurnar.
Ég vildi bara láta vita af því að ég, annálaður heima-hjá-foreldrum-búi, er að fá íbúð í júní!! Já, elskurnar mínar, loksins, LOKSINS, get ég endurborgað mikla áfengisneyslu á kostnað annarra með því að halda grand innflutningspartý. Að vísu er ég ekki komin með nákvæma dagsetningu á flutninga, en þið vitið þá af því að ykkur (lesist, kjallararottum) er formlega boðið í innflutningspartý.
Við sjáumst seinna
Lilja, nánast einbúi

Stofnfundur næsta mánudag

Á stofnfundi akademíska hópsins ,,þeir sem geta ekki farið í lobotomy vegna þess að það er ekkert til að fjarlægja" verður rætt um varnarhætti sjálfsins, samband manns og anda ásamt því hvernig eigi að slökkva óæskilega (og á stundum lífshættulega) hegdun með hugarorkunni einni saman.

Mannfræðinemar velkomnir.

formaður

Stofnfundur

Á stofnfundi akademíska hópsins ,,þeir sem geta ekki farið í lobotomy vegna þess að það er ekkert til að fjarlægja" verður rætt um varnarhætti sjálfsins, samband manns og anda ásamt hvernig eigi að slökkva óæskilega lífshættulega hegdun með hugarorkunni einni saman
kv formaður.

nýtt nafn

Já ég hef nú þegar sett inn beðni til mannanafnanefndar (gat einhver lesið þetta?) um að fá að breyta nafninu mínu í RETARD with shit for brains....... málefnið verður tekið fyrir næsta mánudag...

Þvílík frammistaða

Já nú hefur undirritaður skipað sjálfan sig formann akademíska hópsins sem andri rotta ætlaði að ganga í eftir metframmistöðu hans í öðru hlutaprófi í skynjun. Sú frammistaða var toppuð í seinustu viku! Binni heimski lærði eins og svín fyrir próf sem hann svo féll í! Já, álfurinn hefur eflaust skriðið uppí rúm til Binna kvöldið fyrir próf og KÚKAÐ í cortexinn hans.
Ég er að spá í að fara til Árna og reyna sannfæra hann um að svörin mín hafi í raun verið rétt en að hann sé bara að skynja þetta rangt.......veit ekki hvort það muni ganga.
Ég bind miklar vonir við akademíska hópinn sem ég gegni formennsku og heiti því að sinna málefnum hans af kostgæfni og af heilindum. Held ég láti hann heita ,,þeir sem geta ekki farið í lobotomy því það er ekkert til að fjarlægja" Veit ekki alveg hvort að það verði nægilega þjált en hvernig á ég að finna eitthvað betra!..... varla læs sjálfur. Þessi hópur mun einbeita sér að þarfapíramída Mastlows, parapsýkkólógíu og sensíhópum. S.s. eitthvað fyrir alla. Hver vill ekki dansa um nakinn eftir of stóran skammt af valíum og viskí? Ég bara spyr, og eftir frammistöðu annara rotta á drykkjusviðinu undanfarna önn (og lengur) býst ég við góðri mætingu. Getur jafnvel verið að ég muni bjóða einnig uppá malibu í kók, bara svo Andri hafi eitthvað til að drekka.......... :)

kv. Binni-heimski
JÁ!!!!! nú veit ég hvað gerðist..... þetta var selective forgetting!.......

Nýtt gervigreindarsetur HR

Það er greinilegt að hugðarefni mín virðast vera að fá meiri og meiri athygli hérna á litla Íslandi. Sjá hér.

Af klínískum fundi á kleppi

Það er bara ekki þverfótað fyrir gáfnaljósum hér á kleppi.

Á klínískum fundum eru ræddir nýir sjúklingar sem leggjast inn hér til endurhæfingar.
þá er gerð grein fyrir sögu þeirra og einkennum.

Þá má líka búast við því að spurt sé um helstu markmið sem sett eru í sambandi við þessa sjúklinga.

í dag var svarið: Að hún komist í betra andlegt jafnvægi.

Undarlegt

Það er undarlegt fólk í Odda þessa dagana.
Þetta er í annað skipti sem að einhver sest við hliðina á mér í næstum tómri tölvustofu og byrjar að tauta við sjálfan sig!

Núna er ég farin að velta fyrir mér hvort ég kalli þetta fram í fólki og sé orðin einhvers konar greinireiti fyrir einhverfu-sjálfstals-hegðanIR (í fleirtölu bara fyrir Gabríelu ;) eða hvort þetta sé bara nokkuð algengt.

Maður spyr sig.

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Heyrst hefur úr innstu myrkrum Odda...

Bíbb, bíbb, búbb, bíbb, bíbb, búbb, bíbb, búbb, bíbb, búbb, bíbb, bíbb, búbb, bíbb, búbb, bíbb, búbb, bíbb, búbb, bíbb, bíbb, bíbb, búbb, bíbb, búbb, bíbb, búbb, bíbb, bíbb, bíbb, bíbb, bíbb, búbb, bíbb, búbb, bíbb, búbb, bíbb, bíbb, bíbb, búbb, bíbb, bíbb, búbb, bíbb, bíbb, búbb, bíbb, búbb, bíbb, búbb, bíbb, bíbb, búbb, bíbb, bíbb, bíbb, búbb, bíbb, búbb, bíbb, búbb, bíbb, bíbb, bíbb, bíbb, bíbb, búbb, bíbb, búbb, bíbb, búbb, bíbb, bíbb... [et cetera í um 10 klukkustundir á dag]

Það sem maður lætur sig hafa fyrir að klára BA-verkefnið sitt. Úff...

sunnudagur, apríl 17, 2005

Ooh, af hverju erum við ekki kjallararottur í þessum skilningi?

Dem...

*Klapp klapp klapp*

Það eru virkilega þrjár færslur með þremur mismunandi bloggurum hér á kjallararottum núna, og enginn af þeim er ég! Mikið hrós til ykkar fyrir bloggvirkni, krakkar. :-D Haldiði svona áfram.

föstudagur, apríl 15, 2005

Niðurlæging?

Hef ég fengið átæðu til að efast um gildi námsins eða eigin hæfni til að hagnýta mér nýja þekkingu?

Ég stend núna ráðþrota frammi fyrir því verkefni að sandkassavenja tvo kettlinga. Dáldið auðmýkjandi!

Sumarvinnu reddað

Friðrik bauð mér aftur vinnu á Félagsvísindastofnun. Ég samþykkti það náttúrulega enda er fínt að vera þar. Ég sé meira segja fram á hugsanlegan möguleika á að geta stundum unnið úti í garði fyrst ég er nú komin með fartölvu (ef ég fæ einhvern tíma frið fyrir gróðurofnæminu og helvítis geitungunum).

Ég ætla að einsetja mér að:
a) vera ekki ofurölvi í starfsmannapartýum fyrir framan annað starfsfólk, stjórnmálafrömuð, rektorskandídat og formann félagsvísindadeildar (ólíkt því í fyrra).
b) rífa ekki risastórt gat á rassinn á buxunum mínum í starfsmannapartýum fyrir framan annað starfsfólk, stjórnmálafrömuð, rektorskandídat og formann félagsvísindadeildar (ólíkt því í fyrra).

Snilldar rannsókn

Þessa hérna sá ég í journal of personality and social psychology
Interpersonal Relations and Group Processes
The Interpersonal Effects of Emotions in Negotiations: A Motivated Information Processing Approach*1

Three experiments tested a motivated information processing account of the interpersonal effects of anger and happiness in negotiations. In Experiment 1, participants received information about the opponent's emotion (anger, happiness, or none) in a computer-mediated negotiation. As predicted, they conceded more to an angry opponent than to a happy one (controls falling in between), but only when they had a low (rather than a high) need for cognitive closure. Experiment 2 similarly showed that participants were only affected by the other's emotion under low rather than high time pressure, because time pressure reduced their degree of information processing. Finally, Experiment 3 showed that negotiators were only influenced by their opponent's emotion if they had low (rather than high) power. These results support the motivated information processing model by showing that negotiators are only affected by their opponent's emotions if they are motivated to consider them.

S.s líðan annarra hefur bara áhrif á mann ef manni er ekki sama hvernig þeim líður....Hmmm! Þetta þurfti að raunprófa, ég gæti til dæmis ímyndað mér að ef e-r væri fúll út í mig hefði það mikil áhrif á mig þótt ég hefði engan áhuga á því hvernig honum liði (og myndi seint vita það ef ég væri ekkert að spá í því).

Fólk hlýtur að nóbelinn fyrir svona.

Jaðarmarktekt!
Andri rotta

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Hehe, mér veitti nú ekki af þessu

Klukka sem mælir heilavirkni og vekur mann úr léttasta svefnfasanum. Fyrir þá sem hafa fengið nóg af því að snooza.

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Stress

Ég var búin að gleyma hvað stress fer mikið í skapið í mér. Er búin að vera mjög jumpy í dag. Ákvað að afkúppla með því að taka til á skrifborðinu mínu. Nú sé ég virkilega í borðplötuna, en áður leit það svona út:

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Snjallasta almannatengslatrix allra tíma??

Ég er farin að hallast að því að ást og allt sem henni fylgir séu snjöllustu almannatengsl allra tíma. Hugsið ykkur bara að fyrir nokkrum öldum síðan voru það foreldrarnir sem ákváðu hverjum börn þeirra áttu að giftast (og er víst ennþá þannig í einhverjum löndum). Svo á miðöldum vaknaði einhver konungur upp við það að hann var að verða gjaldþrota og hann þurfti að finna nýjan markaðshóp. Hvað gerir hann?? Jú, hann lætur búa til rómansa fyrir hefðarkonur sem voru fastar í hjónabandi með eldgömlum karli og sem þurftu á smá upplyftingu að halda frá þessu venjulega skýrlífsbelta-, kjóla-sem-kæfðu-, sittu-og-þegiðu-kjaftæði. Svo lætur hann búa til sögur um hvað flokkist sem rómantík og hvernig konurnar eigi að haga sér, þannig að þær fara út og kaupi fleiri föt, meiri mat, blóm, þjónustu frá lútuleikurum (eða einhverjum tónlistarmönnum sem hefðu annars ekki haft neitt að gera) og svo framvegis, allt til þess að þær eyði meiri pening svo að hann geti haldið velli sem konungur. Svo hefur öðrum ríkisstjórum fundist þetta svo góð hugmynd að þeir hafa apað þetta eftir og þannig hefur þetta gengið allt fram á okkar daga. Í dag er endalaust verið að segja manni hvernig maður á að haga sér til þess að öðlast maka/halda í maka/láta makann halda í mann, einungis til þess að maður versli meira. T.d. má taka tilhugalíf para. Konur kaupa ný föt, karlmenn borga matinn, parið kaupir ákveðinn geisladisk til þess að "eiga lagið sitt (ef það er nýtt)", karlmenn kaupa hringana, konur kaupa meiri föt o.s.frv. o.s.frv. Hvernig haldið þið að neyslumarkaðurinn væri ef það væri engin "ást" til, þ.e. ef fólk væri bara sett saman og þyrfti að vera saman til æviloka? Ætli það væri til tíska, eða farði? Ég myndi a.m.k. ekki eyða eins miklum tíma í að hafa mig til áður en ég færi á djammið! En þá er líka spurning hvort margir karlmenn væru ekki helmingi meiri asnar ef þeir héldu að þeir þyrftu ekki að hafa neitt fyrir þessu, og örugglega meira heimilisofbeldi líka.

Ein sem er orðin þreytt á ástarsöngvavæli

Flugum stjórnað með því að kveikja á taugum þeirra

Verulega kúl. Af hverju fór ég ekki í verkfræði eða eitthvað? :-/

sunnudagur, apríl 10, 2005

Total eclipse of the heart

Ég átti mjög afkastamikla helgi, eins og þið hin (nema maggi, helvítis samviskusemin uppmáluð). Já, og ég ætla að segja að Kjartan var frábær á fimmtudaginn, hann hefði geta sannfært mig um að pómó og Micheal Bolton væru með því besta sem hefur komið fyrir þennan heim.

En hvernig sem fer, þá tók ég þá ákvörðun eftir afmæli Kjartans og Vöku að ég ætlaði ekki að drekka fyrir en eftir próf. Framheilinn minn reyndist geta haldið það út í viku og ég staulaðist heim um 6.

Svo var það náttúrulega fimmtudagurinn. Ég man ekki eftir öðru eins fyllerí! Hvað var málið?? Og ég staulaðist náttúrulega heim á svipuðum tíma eftir ofdrykkju, móðga systur hans Flóka og e-a frekari dramatík.

Og svo var vísindaferð á föstudaginn í IMG gallup (það var ein stelpa sem spurði svo mikið af prins póló spurningum að ég held þau telji okkur vera fávita), en þar drullaði ég yfir 360 gráðu frammistöðumat sem þeir selja, persónuleikapróf sem þeir nota við ráðningu og var í buxum með ónýtun buxnarklauf (sem hefur styrkt málstað min til muna. Ég fór samt í þessar buxur til að fara ekki á fyllerí en mér var freistað og það þarf ekki mikið til). Jæja, eftir það lá leiðin í partý í kópavog (sem var hin mesta skemmtun) og síðar á celtic cross. Þar var ég (með bilaða buxnaklaufinn) að spyrja alla hvort þeir gætu spilað total eclipse of the heart á píanó og reyna að safna saman fólki til að syngja það. Það vildi það enginn þannig ég öskraði "total eclipse of the heart" yfir allan staðin á milli laga (og lét nokkra biðja um það) , en ég fékk ekki helvítis lagið mitt.

Nú gæti einhver haldið að hér hafi hvatvísa dýrið ekki varið tíma sínum vel, sérstaklega í ljósi þess að það hefur svo mikið að gera.

En er þetta ekki svona total eclipse of the heart.

Jaðarmarktekt!

Andri Rotta.

Ég hugsa mér hlut...

Hér er sniðugt tauganet sem leikur þennan leik. Þú hugsar þér hlut og tauganetið reynir að giska á hver hann er. Því tókst að giska rétt á það sem ég hugsaði mér. :-D

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Lok, lok og læs

Klukkan er hálffimm um nótt, ég er inni í Odda og kemst ekki út. Afar áhugaverð staða. Það ætla víst einhverjir vaktmenn að hleypa mér út á eftir. Var svo sem alveg búin að búa mig undir að sofa inni í Animuherbergi. Aðeins skemmtilegra, samt, að komast heim að lúlla.

mánudagur, apríl 04, 2005

Allt er ágætt

Eftir að ég sá síðasta Euro-reiknig er komið að því: Ég er að reyna að hætta að reykja. Þar sem að þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn tók ég þá ákvörðun að prófa Zyban. Fyrir þá sem ekki vita þá er það unnið upp úr Wellbutrini sem er þunglyndislyf og hefur þar af leiðandi áhrif á skapið í manni. Einn gallinn er að maður er alltaf eirðarlaus sem ég túlka cognitivt inni í mér sem löngun í sígarettu eða með öðrum orðum þá er þetta greinireiti fyrir reykhegðun. Málið er bara að eirðarleysið fer ekkert þó svo að maður reyki.
Vissulega virkar þetta samt þ.e. að mann langar ekkert sérstaklega í sígarettu, en ég hafði ekki alveg gert ráð fyrir því að mann langaði ekki sérstaklega í neitt. Mig langar ekki einu sinni í áfengi!!! Já langanir, ætlanir og allt það er farið... gott ef að þetta er ekki bara lyf við íbyggni. Það er allt svona einhvern vegin ágætt, mér finnst jafnvel ágætt að fara í líkamsrækt!!! Ég er orðin ein af þessu fólki sem að vaknar á morgnanna (ekki upp úr hádegi lítandi út eins og nýgotinn rottuungi), borðar morgunmat, fer í líkamsrækt og bölvar ekki yfir því að þurfa að skafa bílinn. Núna vantar bara að ég fari að ganga með plastblóm í hárinu og finnast áhugavert að tala um hægðir ungbarna. Mér leiðist ég! ...en það er bara ágætt.

sunnudagur, apríl 03, 2005

Tölva stjórnar hreyfingum manns með því að "lesa hugsanir" hans

Ótrúlega sniðugt! Ég væri til í að sérhæfa mig í einhverju svona. Hreyfiskynjun og -stjórn er mjög spennandi rannsóknarsvið.

Raunvísindi vs. félagsvísindi

Af því að við Gabríela erum búnar að tala heilmikið um hvort og hvernig sálfræði skiptist í raun- og hugvísindahluta, þá langaði mig að velta þessu örlítið fyrir mér. Af hverju er mér svona mikið í mun að sálfræði sé ekki bara félagsvísindagrein?

Ég held að það komi til af ýmsu. Fyrir það fyrsta er hægt að líta á orðin, raunvísindi og félagsvísindi. Ég veit að orðið er ekki komið af þeim stofni, en fólk virðist líta á raunvísindi sem raunVERULEG vísindi. Aftur á móti virðist fólk líta á félagsvísindi sem kjaftafag fyrir kerlingar. Að auki hafa félagsvísindi það orð á sér að þau séu ekki hagnýt, að aðferðafræði þeirra sé ekki nógu góð, að þau séu ekki nógu nákvæm, að fólk í félagsvísindum kunni ekki stærðfræði og að það sé ignorant um þekkingu í líffræði, efnafræði og eðlisfræði. Að auki, og ef til vill VEGNA þess sem ég taldi hér upp, eru minni atvinnumöguleikar fyrir fólk í félagsvísindum og það fær minna borgað fyrir sína vinnu.

Af því að ég kem af náttúrufræðibraut en sálfræði er flokkuð með félagsvísindum vekur það upp spurningar hjá sjálfri mér hvað í ósköpunum ég sé að gera hér og af hverju ég hafi ekki bara farið í einhverja aðra grein. Mig langar ekki að þurfa alltaf að réttlæta fyrir mér og öðrum að ég sé í þessu námi. Mig langar ekki að falla inn í þessa mynd, hvort sem hún er staðalmynd eða raunveruleg.

föstudagur, apríl 01, 2005

Nota bene

Mér finnst einmitt að sálfræðiskor eigi að taka það upp eftir tölvunarfræðiskor (og fleiri skorum) að bjóða upp á mismunandi námsleiðir. Það er staðreynd að fólki í sálfræði finnst annað hvort raungreinahlið (lífeðlisleg sálfræði, skynjunarsálfræði...) eða félagsvísindahlið (þroskasálfræði, klínísk sálfræði, félagsleg sálfræði...) sálfræði skemmtileg, en yfirleitt ekki hvort tveggja. Af hverju ekki að skipta þessu í tvær námsleiðir og gefa fólki þá meira fyrir sinn snúð? Allir myndu græða á því...

Gagnvirkni manns og tölvu: Nýtt nám í tölvunarfræði

Þetta finnst mér afar athyglisverð þróun. Það er greinilega komin ný námsleið í BS í tölvunarfræði, og þar er fólk látið taka hvorki meira né minna en 6 áfanga í sálfræði! Áfangarnir eru: Tölfræði 1, aðferðafræði, almenn sálfræði, greining og mótun hegðunar, skynjunarsálfræði og tölfræði 2. Vá, hvað ég hefði valið þessa námsleið ef hún hefði verið til þegar ég byrjaði í Háskólanum! Ég myndi að vísu bæta við lífeðlislegri sálfræði.

Þetta má svo sjá betur hér.