sunnudagur, desember 31, 2006

Bréf mitt til Fréttablaðsins um fréttir af vísindum og fræðum

Ég er alveg komin með nóg af vondum fréttaflutningi af vísindum og fræðum og skrifaði því þetta bréf og sendi til Fréttablaðsins. Birti það hér á Kjallararottum fyrir þá sem hafa áhuga. Fréttin sem ég tala um er á blaðsíðu 8 í Fréttablaðinu 31.12.06. og birtist þar undir fyrirsögninni "Skammdegisþunglyndi er mýta". Ég fer bráðum að skrifa um þetta í blöðin, þetta er orðið rosalega pirrandi.


Komiði öll sæl.

Mig langar aðeins að koma á framfæri athugasemdum varðandi fréttaflutning Fréttablaðsins af vísindum og fræðum. Það má ýmislegt gott um hann segja; ég vinn til dæmis hjá Vísindavefnum og vil fyrir hans hönd þakka ykkur fyrir gott samstarf. Einnig er ég ánægð með að þið skulið nokkuð oft taka viðtöl við sérfræðinga um ýmis málefni. Til að mynda sá ég að þið töluðuð við Árna Björnsson, þjóðháttafræðing, um sögu áramótanna, og er það mjög til fyrirmyndar þar sem Árni er einna fróðastur allra Íslendinga um sögu jólanna og annarra hátíða.

Það er þó líka margt sem betur mætti fara. Til dæmis ætla ég að taka pistil sem birtist í dag um skammdegisþunglyndi. Ég vil strax taka fram að það er ekki ætlun mín að ráðast persónulega á þann sem skrifaði þá frétt; hún er ekkert einsdæmi og ég gæti eflaust tekið fyrir aðra frétt. Það sem er ábótavant í fyrrnefndri frétt er aðallega tvennt: Heimildanotkun og alhæfingar.

==Heimildanotkun==

Varðandi heimildanotkun þá tekur greinarhöfundur vissulega fram að samtalið við viðkomandi vísindamenn hafi upphaflega birst í Aftenposten. En Aftenposten er ekki vísindarit; menn þar á bæ geta verið góðir blaðamenn en þeir eru samt sem áður ekki sérfræðingar á viðkomandi sviði og eru þar af leiðandi ekki í mjög góðri stöðu til að ritrýna eða gagnrýna það sem kemur fram í viðtalinu. Í fræðaheiminum er venjan að ekki er "tekið mark" á rannsóknum öðrum en þeim sem farið hafa í gegnum strangt ferli ritrýningar og gagnrýni, svokallað jafningjamat (e. peer review), en þetta er ávallt gert áður en rannsóknargrein fæst birt í viðurkenndu fræðiriti. Verið getur að norsk-ítalska rannsóknin hafi farið í gegnum slíkt ferli, en það er aldrei tekið fram í grein Fréttablaðsins. Vilji maður því fletta upp fræðigreininni til að meta sjálfur sannleiksgildi þess sem haldið er fram er það enginn hægðarleikur, maður veit ekkert hvert skal leita.

Ég vona að þið sjáið af þessu að í fréttaflutningi af vísindum og fræðum er afar mikilvægt að nota alltaf frumheimildir ef hægt er, það er rannsóknargrein sem birtist í vísindariti eftir jafningjamat. Annars er hætta á maður api eftir misskilningi annarra á upphaflegu greininni eða að fréttaflutningurinn verði ónákvæmur, rétt eins og saga bjagast sífellt meira eftir því sem hún gengur oftar mann fram af manni. Í þeim tilvikum sem þetta er ekki mögulegt vil ég samt biðja ykkur um að geta þó frumheimildarinnar, eða allavega leiðar til að nálgast hana, svo maður geti sjálfur athugað sannleiksgildi staðhæfinga.

==Alhæfingar==

Flestir vísinda- og fræðimenn fara afar varlega í alhæfingar og hafa oft varúðarorð með staðhæfingum, svo sem "Eftir því sem við best vitum..." eða "Túlkun okkar á gögnunum er því þessi..." Það heyrir sömuleiðis til algjörra undantekninga að ein rannsókn umbylti viðteknum hugmyndum innan fræðasviðs. Þegar rannsókn stangast á við það sem menn telja sig vita, til dæmis að skammdegisþunglyndi stafi raunverulega af lítilli birtu, getur verið að niðurstöður rannsóknarinnar þýði að niðurstöður allra hinna hafi verið rangar. En það eru ótal aðrar skýringar á af hverju þessi eina rannsókn gaf aðrar niðurstöður, til að mynda að aðferðafræði vísindamannanna hafi verið ábótavant, að niðurstöðurnar hafi fengist vegna tilviljunar, að þeir hafi ekki verið að mæla nákvæmlega sama hlutinn og aðrir og svo framvegis.

Það er því afar varhugavert að skella upp fyrirsögnum eins og "Skammdegisþunglyndi er mýta" þegar sú niðurstaða er byggð á a) einni rannsókn og b) ekki er farið í frumheimildir til að athuga aðferðafræði og annað sem gæti gefið tilefni til annarrar túlkunar. Ég tek það fram að auðvitað getur verið að þetta sé fullkomlega rétt hjá þessu norsk-ítalska rannsóknarteymi. En út frá einu viðtali sem tekið var við vísindamennina í erlendu dagblaði má ekkert fullyrða um það. Skömminni skárra hefði verið að hafa titilinn "Skammdegisþunglyndi gæti mögulega verið mýta" eða eitthvað í þá átt til að gefa fólki ekki þá ranghugmynd að þetta sé fullkomlega viðurkennd staðreynd.

Það er afar jákvætt að fjölmiðlar sýni vísindum og fræðum athygli, og þeir mættu raunar gera enn meira af því en þeir hafa gert hingað til. Mig langar samt svo innilega að það sé aðeins betur að þessu staðið, til dæmis að hugað sé að því að nota góðar heimildir og alhæfa ekki þegar slíkt á illa við. Þessum markmiðum mætti líklega helst ná með því að Fréttablaðið og aðrir fjölmiðlar réðu til sín fólk sem menntað er í vísindum og fræðum, sem er læst á fræðigreinar og veit hvað skal varast þegar sagt er frá niðurstöðum rannsókna.


Bestu kveðjur,
Heiða María Sigurðardóttir

laugardagur, desember 30, 2006

Jólafærsla

Svona í tilefni 2006 ára afmælispartý Sússa, þá er hérna afar skemmtileg heimildarmynd sem sýnir arfleiðina

Reynið í alvöru að horfa á þetta án þess að fyllast reiði

föstudagur, desember 22, 2006

Sköpum smá umræður

Í tilefni af því að nú eru heilir tveir dagar til jóla, fannst mér góð hugmynd að fá smá umræður um jólahátíðina sjálfa.

Eins og allir vita, eru jólin upprunalega byggð á ljósahátíð þar sem fólk fagnaði endurkomu ljóssins. Rannsóknir hafa svo sýnt að Jesús Kr. Jósefsson fæddist líklegast ekki í desember, heldur í apríl. Með nútímajólabrjálæði, trúleysi og skorti á kirkjumætingu virðist grundvöllur þess að halda upp á fæðingu Jesú vera að hverfa og því spyr ég: Fyndist ykkur réttlætanlegt að hætta að halda upp á fæðingu Krists og taka í staðinn upp fögnuð yfir "endurkomu ljóssins"?
Ricky fræðir okkur um sköpun heimsins

Þetta er bráðfyndið. Maðurinn er mikill snillingur.

föstudagur, desember 15, 2006

Föstudagsfílingurinn

Starfræn segulómmyndun á Íslandi

Það er vel mögulegt að einhverjir lesendur þessa bloggs hafi áhuga á fundi um uppbyggingu á aðstöðu til starfrænnar segulómunar (fMRI) á Íslandi. Allir sem hafa áhuga eru hvattir til þess að mæta.

Fundurinn er í dag kl. 14 í fundarherbergi 532 á fimmtu hæð í aðalbyggingu HR, Ofanleiti 2.

fimmtudagur, desember 14, 2006

Atferlisfræðingur

Sá frétt á Rúv áðan þar sem Cliff Dixon Atferlisfræðingur (tja.. prófæler eða?) var að tala um fórnarlömb morðingjans í Bretlandi...
mér þótti þetta mjög góðar lýsingar og mikar upplýsingar komu þarna fram auk þess sem það þurfti greinilega sérfræðing til að komast að þessu:

Þetta er beint orðað úr viðtalinu við Cliffy boy
"Þær eru mjög berskjölduð fórnarlömb, væntanlega meðal berskjölduðustu fórnarlamba samfélagsins því staðreyndin er sú að þær eru auðveld bráð. Það er auðvelt að nálgast konurnar vegna eðlis starfa þeirra þess vegna eru þær auðveld bráð"


p.s Kaldhæðni skilar sér illa á bloggi

miðvikudagur, desember 13, 2006

Samtal í Boston

Eins og þið kannski vitið er ég í Bandaríkjunum að hitta prófessora. Svona byrjar týpískt samtal við mig í Boston:

Þau: Hi, nice to meet you.
Ég: Hi, it's nice to meet you too. I'm Heiða.
Þau: He... [stórt spurningarmerki í framan]
Ég: Heiða [sagt m-j-ö-g h-æ-g-t]
Þau: Heather? [allir halda að ég heiti Heather]
Ég: No. Heiða. Heiða María Sigurðardóttir
Þau: Is that a name?

miðvikudagur, desember 06, 2006

Já, þannig

Jæja, félagar.

Nú er svo komið að ég er að hugleiða nám í þróunarlegri sálfræði, og hafa þónokkrir mælt með því að ég sé mjög gagnrýnin á það sem ég er að fara að lesa. Í framhaldi af því datt mér í hug að spyrja ykkur Kjallararotturnar hvort það séu einhverjar bækur eða greinar sem hjálpuðu til við að þróa þennan eiginleika (þ.e. gagnrýna hugsun) hjá ykkur.

Koma svo með hugmyndir.

sunnudagur, desember 03, 2006

A Life with Death

Þessi saga hreyfði við mér, af einhverjum undarlegum ástæðum.

10 ár á 90 sek

10 ár af Friends sett uppá 90 sek... ekki amalegt það... annars er þetta mjög sniðug síða hjá þessum gaurum.. sniðug vídjóin hjá þeim...
Þeir eru líka með pilot þátt á Youtube sem lofar bara nokkuð góðu!