sunnudagur, desember 31, 2006

Bréf mitt til Fréttablaðsins um fréttir af vísindum og fræðum

Ég er alveg komin með nóg af vondum fréttaflutningi af vísindum og fræðum og skrifaði því þetta bréf og sendi til Fréttablaðsins. Birti það hér á Kjallararottum fyrir þá sem hafa áhuga. Fréttin sem ég tala um er á blaðsíðu 8 í Fréttablaðinu 31.12.06. og birtist þar undir fyrirsögninni "Skammdegisþunglyndi er mýta". Ég fer bráðum að skrifa um þetta í blöðin, þetta er orðið rosalega pirrandi.


Komiði öll sæl.

Mig langar aðeins að koma á framfæri athugasemdum varðandi fréttaflutning Fréttablaðsins af vísindum og fræðum. Það má ýmislegt gott um hann segja; ég vinn til dæmis hjá Vísindavefnum og vil fyrir hans hönd þakka ykkur fyrir gott samstarf. Einnig er ég ánægð með að þið skulið nokkuð oft taka viðtöl við sérfræðinga um ýmis málefni. Til að mynda sá ég að þið töluðuð við Árna Björnsson, þjóðháttafræðing, um sögu áramótanna, og er það mjög til fyrirmyndar þar sem Árni er einna fróðastur allra Íslendinga um sögu jólanna og annarra hátíða.

Það er þó líka margt sem betur mætti fara. Til dæmis ætla ég að taka pistil sem birtist í dag um skammdegisþunglyndi. Ég vil strax taka fram að það er ekki ætlun mín að ráðast persónulega á þann sem skrifaði þá frétt; hún er ekkert einsdæmi og ég gæti eflaust tekið fyrir aðra frétt. Það sem er ábótavant í fyrrnefndri frétt er aðallega tvennt: Heimildanotkun og alhæfingar.

==Heimildanotkun==

Varðandi heimildanotkun þá tekur greinarhöfundur vissulega fram að samtalið við viðkomandi vísindamenn hafi upphaflega birst í Aftenposten. En Aftenposten er ekki vísindarit; menn þar á bæ geta verið góðir blaðamenn en þeir eru samt sem áður ekki sérfræðingar á viðkomandi sviði og eru þar af leiðandi ekki í mjög góðri stöðu til að ritrýna eða gagnrýna það sem kemur fram í viðtalinu. Í fræðaheiminum er venjan að ekki er "tekið mark" á rannsóknum öðrum en þeim sem farið hafa í gegnum strangt ferli ritrýningar og gagnrýni, svokallað jafningjamat (e. peer review), en þetta er ávallt gert áður en rannsóknargrein fæst birt í viðurkenndu fræðiriti. Verið getur að norsk-ítalska rannsóknin hafi farið í gegnum slíkt ferli, en það er aldrei tekið fram í grein Fréttablaðsins. Vilji maður því fletta upp fræðigreininni til að meta sjálfur sannleiksgildi þess sem haldið er fram er það enginn hægðarleikur, maður veit ekkert hvert skal leita.

Ég vona að þið sjáið af þessu að í fréttaflutningi af vísindum og fræðum er afar mikilvægt að nota alltaf frumheimildir ef hægt er, það er rannsóknargrein sem birtist í vísindariti eftir jafningjamat. Annars er hætta á maður api eftir misskilningi annarra á upphaflegu greininni eða að fréttaflutningurinn verði ónákvæmur, rétt eins og saga bjagast sífellt meira eftir því sem hún gengur oftar mann fram af manni. Í þeim tilvikum sem þetta er ekki mögulegt vil ég samt biðja ykkur um að geta þó frumheimildarinnar, eða allavega leiðar til að nálgast hana, svo maður geti sjálfur athugað sannleiksgildi staðhæfinga.

==Alhæfingar==

Flestir vísinda- og fræðimenn fara afar varlega í alhæfingar og hafa oft varúðarorð með staðhæfingum, svo sem "Eftir því sem við best vitum..." eða "Túlkun okkar á gögnunum er því þessi..." Það heyrir sömuleiðis til algjörra undantekninga að ein rannsókn umbylti viðteknum hugmyndum innan fræðasviðs. Þegar rannsókn stangast á við það sem menn telja sig vita, til dæmis að skammdegisþunglyndi stafi raunverulega af lítilli birtu, getur verið að niðurstöður rannsóknarinnar þýði að niðurstöður allra hinna hafi verið rangar. En það eru ótal aðrar skýringar á af hverju þessi eina rannsókn gaf aðrar niðurstöður, til að mynda að aðferðafræði vísindamannanna hafi verið ábótavant, að niðurstöðurnar hafi fengist vegna tilviljunar, að þeir hafi ekki verið að mæla nákvæmlega sama hlutinn og aðrir og svo framvegis.

Það er því afar varhugavert að skella upp fyrirsögnum eins og "Skammdegisþunglyndi er mýta" þegar sú niðurstaða er byggð á a) einni rannsókn og b) ekki er farið í frumheimildir til að athuga aðferðafræði og annað sem gæti gefið tilefni til annarrar túlkunar. Ég tek það fram að auðvitað getur verið að þetta sé fullkomlega rétt hjá þessu norsk-ítalska rannsóknarteymi. En út frá einu viðtali sem tekið var við vísindamennina í erlendu dagblaði má ekkert fullyrða um það. Skömminni skárra hefði verið að hafa titilinn "Skammdegisþunglyndi gæti mögulega verið mýta" eða eitthvað í þá átt til að gefa fólki ekki þá ranghugmynd að þetta sé fullkomlega viðurkennd staðreynd.

Það er afar jákvætt að fjölmiðlar sýni vísindum og fræðum athygli, og þeir mættu raunar gera enn meira af því en þeir hafa gert hingað til. Mig langar samt svo innilega að það sé aðeins betur að þessu staðið, til dæmis að hugað sé að því að nota góðar heimildir og alhæfa ekki þegar slíkt á illa við. Þessum markmiðum mætti líklega helst ná með því að Fréttablaðið og aðrir fjölmiðlar réðu til sín fólk sem menntað er í vísindum og fræðum, sem er læst á fræðigreinar og veit hvað skal varast þegar sagt er frá niðurstöðum rannsókna.


Bestu kveðjur,
Heiða María Sigurðardóttir

3 ummæli:

Heiða María sagði...

Hér má finna umfjöllun um þessa rannsókn á norsku. Takið eftir grafinu, sem er með ólíkindum asnalegt. Fólk í Noregi og Ítalíu er spurt í hvaða mánuði því líði verst og í ljós kemur að í báðum þessum löndum líður fólki verst í nóvember. Það segir ekkert um að kannski líður Norðmönnum samt ver, í þessum sama mánuði, jafnvel þótt dreifing yfir mánuðina sé sú sama. Sömuleiðis segir það að mér líði verst í mánuði X ekkert til um hvort ég sé þundlynd eða ekki. Tek það fram að ég hef ekki enn fundið upphaflegu greinina um rannsóknina, ef hún er þá einhver, svo ég þekki ekki alveg aðferðafræðina. Ef einhver rekst á hana má sá hinn sami láta mig vita.

Nafnlaus sagði...

Fínt bréf hjá þér og afar kurteist. Hefurðu fengið eitthvað svar?

Í dag var annars birt grein á morgunblaðsvefnum um streitu og krabbamein. Sú grein var alveg í anda annara greina um vísindi. Ég skrifaði nokkrar athugasemd um hana hér.

Heiða María sagði...

Hef ekkert svar fengið, og væri í raun ekkert hissa þótt þeir hunsuðu þetta algjörlega, því miður :-/