þriðjudagur, apríl 12, 2005

Snjallasta almannatengslatrix allra tíma??

Ég er farin að hallast að því að ást og allt sem henni fylgir séu snjöllustu almannatengsl allra tíma. Hugsið ykkur bara að fyrir nokkrum öldum síðan voru það foreldrarnir sem ákváðu hverjum börn þeirra áttu að giftast (og er víst ennþá þannig í einhverjum löndum). Svo á miðöldum vaknaði einhver konungur upp við það að hann var að verða gjaldþrota og hann þurfti að finna nýjan markaðshóp. Hvað gerir hann?? Jú, hann lætur búa til rómansa fyrir hefðarkonur sem voru fastar í hjónabandi með eldgömlum karli og sem þurftu á smá upplyftingu að halda frá þessu venjulega skýrlífsbelta-, kjóla-sem-kæfðu-, sittu-og-þegiðu-kjaftæði. Svo lætur hann búa til sögur um hvað flokkist sem rómantík og hvernig konurnar eigi að haga sér, þannig að þær fara út og kaupi fleiri föt, meiri mat, blóm, þjónustu frá lútuleikurum (eða einhverjum tónlistarmönnum sem hefðu annars ekki haft neitt að gera) og svo framvegis, allt til þess að þær eyði meiri pening svo að hann geti haldið velli sem konungur. Svo hefur öðrum ríkisstjórum fundist þetta svo góð hugmynd að þeir hafa apað þetta eftir og þannig hefur þetta gengið allt fram á okkar daga. Í dag er endalaust verið að segja manni hvernig maður á að haga sér til þess að öðlast maka/halda í maka/láta makann halda í mann, einungis til þess að maður versli meira. T.d. má taka tilhugalíf para. Konur kaupa ný föt, karlmenn borga matinn, parið kaupir ákveðinn geisladisk til þess að "eiga lagið sitt (ef það er nýtt)", karlmenn kaupa hringana, konur kaupa meiri föt o.s.frv. o.s.frv. Hvernig haldið þið að neyslumarkaðurinn væri ef það væri engin "ást" til, þ.e. ef fólk væri bara sett saman og þyrfti að vera saman til æviloka? Ætli það væri til tíska, eða farði? Ég myndi a.m.k. ekki eyða eins miklum tíma í að hafa mig til áður en ég færi á djammið! En þá er líka spurning hvort margir karlmenn væru ekki helmingi meiri asnar ef þeir héldu að þeir þyrftu ekki að hafa neitt fyrir þessu, og örugglega meira heimilisofbeldi líka.

Ein sem er orðin þreytt á ástarsöngvavæli

7 ummæli:

Heiða María sagði...

Þannig að rómanar voru Cosmo miðalda ;-)

Nafnlaus sagði...

ég vil nú endilega mótmæla því efnahagshrun þjóðfélagsins myndi eiga sér stað ef ástin hyrfi, aftur á móti sé ég slík efnahagshrun verða til ef konur verða allt í einu fráhverfar því að fylgjast með öðrum konum. ég er nokkuð viss um að ást hefur ekkert með slíka hegðun kvenna að gera og það er a.m.k. 150% misskilningur að konur séu að hafa sig til fyrir ástina sína, konur hafa sig til fyrst og fremst fyrir aðrar konur og ná þannig að flýja fráreitum frá öðrum konum (t.d. visst augnaráð, gagnrýni, baktal, hneykslun, niðurlæging, o.s.f.v.). Með því að öðlast þennan hegðunarforða (að versla föt, snyrtivörur, skartgripi, o.fl.) eru þær ekki endilega að sækjast eftir jákvæðum styrkjum frá öðrum konum (það er nokkuð tilviljunakennt hvort þau fást), heldur flýja fráreitunum. Og það eru konur sem hafa komið þessum misskilning af stað (þ.e. að konur ahfi sig til fyrir ástina sína og að það sé krucielt atriði til að ná og halda í ástina sína) og það eru konur sem viðhalda þessum misskilning (...kannski til þess að menn þeirra verði ekki gjalþrota og þær þurfi að mæta fráreitum frá öðrum konum þar sem þær geta þá ekki verslað....).

Lilja sagði...

Hehehe, jú, jú, það er alveg rétt að konur eru konum verstar hvað þetta varðar og það getur alveg vel verið að konur séu að flýja fráreiti frá öðrum konum (maður hefur nú lent í því oftar en einu sinni). En getur ekki verið að konur fylgjast með öðrum konum til þess að vita hvaða hegðun sé rétt? Þannig að ef þær sýna ekki rétta hegðun minnka þær líkurnar á samskiptum við þann hóp sem þær vilja tilheyra og hafa þannig áhrif á líkurnar á ástarhegðun karldýra gagnvart sér? Kannski var upprunaleg ástæða hneykslishegðunar kvenna sú að hjálpa öðrum konum að ná í ást? Eða að vera greinireiti fyrir ástarhegðun karldýra með því að gera hinar að fráreiti fyrir þá. Ég held ég sé komin í hringavitleysu. En ég er ekki alveg sammála því að það séu bara konur sem viðhalda þessum misskilningi, þar sem mikill hluti markaðssölumanna eru karlmenn, og þeir nýta sér þennan misskilning mikið í alls kyns lögum, kvikmyndum og auglýsingum.

Nafnlaus sagði...

hehehe, jú, óhjákvæmilegt er að verða fyrir áhrifum sýnikennslu kvenna sem þær hafa fyrir aðrar konur....tala ekki um sýnikennslu mæðra fyrir stelpur sínar--og syni ---. Ja, ég sé kannski ekki beint samband við að missa af samskiptum við aðrar konur og eiga ekki ástvin, þetta tvennt getur verið ótengt. ég held að ástarhegðun karldýra fari lítið eftir því hvort eða hversu mikið af tiltekin hegðun kona sýni, vegir hrifningarinnar eru næstum órannsakanlegir og mjög dularfullir, en vissulega, jú, tískur og straumar ráða oft mikið um fyrstu viðbrögð--en þau duga ekki lengi. Og jú, karlmenn setja vöruna "out there" að mestu leyti en það eru konurnar sem halda hlutunum gangandi og fá aðrar konur til að taka þátt, annars: fráreiti. He, he.

Nafnlaus sagði...

Konur eru konum verstar. Karlar spá ekki jafn mikið í fáranlega smáa "útlitsgalla" á konum líkt og aðrar konur gera.

En ást og ástarsögur og ást var til löngu fyrir miðaldir, enda þurfa menn ekki að vera menntaðir í markaðsfræðum og fortölum til að fást við slíkt.

Það eru konur sem velja að ganga í fáralega óþægilegum fötum og verja meiri tími í útlit sitt en ástæða er til. Tískufrömuðir eru að mestu konur og samkynhneigðir menn.

Svo er það annað mál, konur þurftu alveg jafn mikið að hafa sig til áður en þær gátu valið sér maka.

En það er kannski einfaldara, og öllum til hagsbóta, að karldýr geta bara spurt: Villtu sýna fjölgunarhegðun og konur annaðhvort styrkt eða refsað þeirri hegðun, eftir gæði greinireitisins.

Nafnlaus sagði...

Ég hef aldrei sýnt kaupa sér disk með laginu okkar hegðun sem skýrir hugsanlega afhverju ég er makalaus... eða kannski að það sé því ég hef ekki vingjast við nógu margar fráreitisuppsprettur. Mar spyr sig.

HDJ

Nafnlaus sagði...

Ég held reyndar að það sé ekki málið :)