sunnudagur, apríl 03, 2005

Raunvísindi vs. félagsvísindi

Af því að við Gabríela erum búnar að tala heilmikið um hvort og hvernig sálfræði skiptist í raun- og hugvísindahluta, þá langaði mig að velta þessu örlítið fyrir mér. Af hverju er mér svona mikið í mun að sálfræði sé ekki bara félagsvísindagrein?

Ég held að það komi til af ýmsu. Fyrir það fyrsta er hægt að líta á orðin, raunvísindi og félagsvísindi. Ég veit að orðið er ekki komið af þeim stofni, en fólk virðist líta á raunvísindi sem raunVERULEG vísindi. Aftur á móti virðist fólk líta á félagsvísindi sem kjaftafag fyrir kerlingar. Að auki hafa félagsvísindi það orð á sér að þau séu ekki hagnýt, að aðferðafræði þeirra sé ekki nógu góð, að þau séu ekki nógu nákvæm, að fólk í félagsvísindum kunni ekki stærðfræði og að það sé ignorant um þekkingu í líffræði, efnafræði og eðlisfræði. Að auki, og ef til vill VEGNA þess sem ég taldi hér upp, eru minni atvinnumöguleikar fyrir fólk í félagsvísindum og það fær minna borgað fyrir sína vinnu.

Af því að ég kem af náttúrufræðibraut en sálfræði er flokkuð með félagsvísindum vekur það upp spurningar hjá sjálfri mér hvað í ósköpunum ég sé að gera hér og af hverju ég hafi ekki bara farið í einhverja aðra grein. Mig langar ekki að þurfa alltaf að réttlæta fyrir mér og öðrum að ég sé í þessu námi. Mig langar ekki að falla inn í þessa mynd, hvort sem hún er staðalmynd eða raunveruleg.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jæja, Heiða María, nú ætla ég að setja mig í sálfræðings-stellingar og segja við þig, "Ok, sem sagt, ástæður þess að þú skiptir sálfræðina í raun- og félagsvísindi eru tilfinningalegar". He, he, ég skil þig svo vel....EN ég held að ef þú ætlar að vera sálfræðingur og jafnvel nú þar sem þú ert "bara" í BA námi og ferð senn að ljúka, þá berð þú ákveðna ábyrgð gagnvart þinni grein, þú kemst ekki hjá því að vera fulltrúi greinar þinnar, þ.e. vísindagreinar þinnar. Ég held að það sé nauðsynlegt að útskýra fyrir fólk að sálfræðin er raunvísindagrein. Ég styð þessa staðhæfingu með því að vísa í að mesta öll þekkingin í sálfræði er tilkomin með tilraunum og ÞAÐ er ÓLÍKT því sem gerist í blessuðum félagsvísindum. Svo deila menn innan sálfræðinnar hvernig best sé að safna gögn um það sem á sér stað í þessum tilraunum, hvernig beri að vinna úr þeim gögnum sem safnað er og hvernig er best að túlka og alhæfa úr niðurstöðunum. En aðalrökin fyrir að sálfræðin okkar er raunvísindi er sú að þekkingin er fengin með tilraunum og það er ekkert öðruvísi en í eðlisfræði, efnafræði og mörgum undirgreinum líffræðinnar. En ljósið í enda l'tunnel's er auðvitað að þegar þú ferð í nám til útlanda í taugavísindi þá munt þú líklegast vera í deildum, jafnvel sálfræðideild, sem er ekki flokkað innan félagsvísinda, heldur undir Graduate School eða jú, alveg sér, og aldrei innan félagsvísinda. Hér á Íslandi frömdu menn, eins og Andri vinur minn segir, categorical mistake, þegar þeir flokkuðu sálfræðina með félagsvísindum, en hún var áður í heimspekideild og einhver, m.a. forseti vor, taldi það framför fyrir greinina er hún flutti þaðan í félagsvísindadeild. Enginn raunvísindamaður í sálfræði var þá til sem gat mótmælt þessu enda er ekki víst að slík mótmæli hefði leitt neitt af sér nema e.t.v. að sálfræðin hefði áfram verið í heimspekideildina og hefði e.t.v. síðar flutt í raunvísindadeild. Veit ekki hvort það hefði verið betra, jú, líklegast hefðu nemendur okkar fengið mun betri þjónustu þar en þeir hafa fengið hér innan þessarar deildar, raunvísindadeild hefur verið svo dugleg að afla fjár út á rökum um hvað tilraunaaðstaða þeirra sé dýr. Þetta hefur verið eitt stærstas vandamál að fá skilning á fyrir sálfræðina innan félagsvísindadeildar, þ.e. að við í sálfræði þurfum dýra og fyrirferðamikla tilraunaaðstöðu.