þriðjudagur, apríl 19, 2011

Spáritið

Ég á hjólinu
Ég keypti mér kaffi á okurbúllunni Au Bon Pain og reyndi svo eftir fremsta megni að koma því og sjálfri mér í vinnuna -- á hjólinu mínu. Ég ætlaði fyrst að halda á kaffinu í annari hendi og hvíla hendina á stýrinu, en svo hugsaði ég: "Nei, það gengur ekki, taugakerfið mitt er ekki nógu hraðvirkt til þess að leiðrétta hreyfingar handarinnar sem ráðast af utanaðkomandi kröftum vegna hreyfingar stýrisins. Ég á eftir að sulla niður öllu kaffinu."

Nú voru góð ráð dýr. En svo mundi ég eftir blessuðu spáritinu*. Ég hugsaði: "Þegar hreyfiboð eru send til vöðva er afrit tekið af skilaboðunum og þau send strax aftur til annarra stöðva í miðtaugakerfinu. Þetta afrit, eða spárit, er notað til að spá fyrir um afleiðingar hreyfingarinnar áður en framkvæmd hennar er lokið, og þess vegna er hægt að forrita næstu aðgerð áður en hin fyrri er afstaðin. Ef ég held því á kaffinu mínu í hendinni og styð mig ekki við stýrið getur taugakerfið mitt spáð hratt og örugglega fyrir hreyfingum handarinnar og leiðrétt þær í rauntíma."

Í dag hellti ég ekki niður kaffinu mínu þökk sé menntun minni. Húrra fyrir því!

P.S. Ég var rétt í þessu að hella kaffi niður á buxurnar mínar svo nú er eins og ég hafi pissað á mig. Ég er greinilega ekki með nógu gott spálíkan.

*Hér með legg ég til að efference copy þýðist sem spárit, en 'efferent' merkir 'í burtu frá [líkamanum]' og 'copy' er að sjálfsögðu 'afrit'.

1 ummæli:

Borgþór sagði...

Það er gott að vita að sumt breytist aldrei :)