föstudagur, september 30, 2005

Mannfjandsamleg sálfræðideild

Sigurður Hólm skrifar:

Sigursteinn Másson, formaður Geðhjálpar, fjallaði á ráðstefnu í Háskóla Íslands í gær um vanda geðsjúkra sem stunda nám við Háskólann. Sigursteinn sagði að háskólanemum væri mun hættari við geðröskunum en öðru ungu fólki. Ein ástæðan er líklega sú að framkoma við nemendur er oft mannfjandsamleg, sérstaklega í deildum eins og læknisfræði, lögfræði og sálfræði. Nú þekki ég ekki til lögfræði- og læknisfræðideilda háskólans en sem fyrrum nemandi í sálfræði get ég því miður staðfest að mannfyrirlitningin lifir góðu lífi í sálfræðideildinni.


Ég hef alltaf haft áhuga á sálfræði og mannlegum samskiptum og þegar ég hóf nám við HÍ í sálfræði hélt ég að sálfræðingar, og þar með sálfræðikennarar, væru allir mannlegir og vinalegir. Eins og svo oft áður hafði ég rangt fyrir mér. Ég held að ég hafi aldrei kynnst eins mörgu hrokafullu og samskiptabækluðu fólki á svo stuttum tíma. Sumir kennararnir kölluðu nemendur sína heimska og fleiri komu fram við nemendur eins og þriðja flokks mannverur. Mér er minnisstætt dæmi þar sem kennari lýsti því yfir í miðjum kennslutíma að einn nemandinn væri “of heimskur” til að stunda nám í sálfræði. Í einu tilviki gerði ég þau mistök að mótmæla þessu ofbeldi. Það var ekki vel séð.

Til að gera langa sögu stutta hætti ég í sálfræði eftir tvö ár (námið tekur þrjú ár). Ein ástæðan var sú að ég þjáðist af þunglyndi á þessum tíma og gat ekki hugsað mér að vera vikunni lengur í þessu umhverfi. Auðvitað voru ekki allir kennarar þarna hrokafullir og leiðinlegir. Þeir voru nokkrir afskaplega vinalegir og hjálpsamir, svo það sé á hreinu.

Ábending Sigursteins á hins vegar meira en rétt á sér. Kennarar við háskóla þurfa, eins og allir aðrir, að gera sér grein fyrir að aðgátar er þörf í nærveru sálar. Maður hefði haldið að kennarar í sálfræði gerðu sér grein fyrir þessu.

Undirritaður stundar nú nám við iðjuþjálfun í Háskólanum á Akureyri.

5 ummæli:

Heiða María sagði...

P.S. Er Sigursteinn kominn í Uppeldis- og menntunarfræði? Sjá http://www.roskva.hi.is/kosningar2005/studrad.php

Heiða María sagði...

Meira hér: http://karljohann.andhiminn.org/

Það þurfti einhver að segja það

Og hver betur til þess fallinn en Sigursteinn Másson? Það er verið að fara illa með greyið háskólanemana. Tekin nokkur góð dæmi úr sálfræðinni, þar er komið ófreskjulega fram við nemendur, en það er líka allt í lagi, við lærðum á fyrsta ári að við værum ekki fólk hvort sem er.

Heiða María sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Andri Fannar sagði...

Ég held við hrakið þetta í greininni - í deild þar sem meira en 1000 manns hafa útskrifast segja 2 eða 3 (eða 10) einhliða sögur ekkert um ástandið á fyrsta ári.....æi álfur, cortex, smá bónus.

Nafnlaus sagði...

þetta kemur kannski full seint, en betra seint en aldrei....
Kall greyið. Hann hefði átt að hætta í mun fyrr í sálfræði. Seinasta setningin hans bendir til þess að hann hafi ekki lært NEITT á þessum tveimur árum sem nemandi í sálfræði. Ætli hann hafi haldið að við værum að tala um raunverulegt leikhús þegar talað var um kartíska leikhúsið? Maður bara spyr.... Það er þó eitt rétt í þessum skrifum hans... að hann hefur oft rangt fyrir sér!
Kv. Binni rotta.