miðvikudagur, október 12, 2005

Er ekki mál að linni?

Hér birtist grein Baldurs, Ellu, Heiðu, Sigrúnar og Vöku í heild sinni:

Í MORGUNBLAÐINU laugardaginn 1. október svaraði Sigursteinn Másson gagnrýni Andra Fannars Guðmundssonar og Kjartans Smára Höskuldssonar á fyrirlestur hans, "Háskóli Íslands, gróðrarstía geðraskana". Ef marka má umfjöllun fjölmiðla hélt Sigursteinn því fram að hroki og mannfjandsemi kennara við sálfræðiskor Háskóla Íslands valdi geðröskunum nemenda.

Umræðan eins og hún snýr að þjóðinni
Í svari sínu dregur Sigursteinn upp skopmynd af Andra og Kjartani og gefur í skyn að þeir séu andsnúnir því að HÍ taki málefni geðfatlaðra til umfjöllunar. Heldur hann virkilega að ágreiningur sé um hvort eigi að leitast við að hjálpa nemendum sem stríða við andlega vanheilsu? Nú standa yfir geðhjálpardagar og við HÍ hefur verið stofnað félag fólks með geðraskanir og áhugamanna um málefnið. Við fögnum því heilshugar. En við vekjum athygli á að gagnrýni Andra og Kjartans beindist aðeins að þeirri vafasömu fullyrðingu að kennarar orsaki geðraskanir og að HÍ sé "gróðrarstía geðraskana". Þetta er einfaldlega ekki rétt. Formaður Geðhjálpar á að vita betur en svo að tala um orsakasamband og að fella allar geðraskanir undir sama hatt.

Sigursteinn segir að gagnrýni Andra og Kjartans byggist á afbökun fjölmiðla á orðum hans; hann hafi til dæmis slegið nokkra varnagla. Hvort þetta er rétt skiptir ekki máli. Sigursteinn, sem er sjálfur fjölmiðlamaður, átti að sjá sóma sinn í að leiðrétta umfjöllun fjölmiðla. Það hefur hann ekki gert og ber því að hluta ábyrgð á þeirri umræðu sem hér hefur hafist. Óeðlilegt væri ef hann leiðrétti ekki misskilninginn og gerði grein fyrir samhenginu og þeim varnöglum sem hann talar um. Hvað er átt við með því að andlegri velferð nemenda "sé kerfisbundið stefnt í voða"? Er virkilega sanngjarnt að halda því fram að HÍ ýti beinlínis undir geðsjúkdóma eins og Vísir.is hefur eftir Sigursteini? Á þeim árum sem við höfum verið hér höfum við aldrei þolað eða orðið vitni að slíkri meðferð.

Hvað er hroki og mannfjandsemi?
Af umfjöllun Morgunblaðsins og Stöðvar 2 að dæma virðist Sigursteinn tala um kröfur til nemenda um talsvert vinnuframlag og ákveðin vinnubrögð. Sálfræði leggur áherslu á agaðar aðferðir til skýringar á mannlegri hegðun, hugsun og skynjun. Að ætlast til að nemendur tileinki sér þessi vinnubrögð er ekki hroki heldur eðlileg og nauðsynleg krafa. Það er sérstaklega til bóta fyrir geðsjúka að þeir nemendur sem stefna að klínískum starfsframa fái viðunandi undirbúning til að fást við geðraskanir.

Nemendur eru strax á fyrsta degi varaðir við álaginu og þeim sagt að námið sé erfitt, enginn komist létt frá þessu, og já, margir falla. Nemendur vita að hverju þeir ganga og það er gott. Ímyndum okkur fallhlutfallið og vonbrigðin ef allir héldu að þetta væri auðvelt. Í svargrein Sigursteins virðist hann vera sammála því að eðlilegt sé að gera kröfur, en í hverju felst þá hrokinn og sú óeðlilega kröfuharka sem hann talar um?

Sé þessi túlkun afbökun á orðum hans er rétt að hann leiðrétti það, því málefnaleg gagnrýni á uppbyggingu námsins á fullan rétt á sér. En persónuárásir tökum við nærri okkur fyrir hönd kennara. Þeir hafa reynst okkur vel og við þekkjum þá bara sem vandað fólk.

Hvernig á að haga eftirliti með andlegri líðan nemenda?
Sigursteinn nefnir skeytingarleysi kennara gagnvart andlegri velferð nýnema. Kennarar hafa engin tök á að kynnast hundruðum nemenda persónulega og fylgjast með líðan þeirra. Hvernig ætti slíkt eftirlit að fara fram? Tillögur að lausnum væru mun uppbyggilegri en persónuárásir.

Sumum okkar hefur liðið illa hér eða átt í persónulegum vanda og þá voru það einmitt þeir kennarar sem sakaðir eru um mannfjandsemi og hroka sem reyndust okkur vel. Okkur sárnar umræða þar sem ráðist er á skor sem við erum ánægð með og þykir vænt um.

Kennarar hafa augljóslega ekki leyft sér að verjast ásökunum með vísun í hjálp og stuðning sem þeir hafa veitt nemendum sínum; enda eru ásakanirnar þess eðlis að ekki er hægt að svara þeim öðruvísi en að játa hroka eða lýsa yfir eigin ágæti sem væri kjánalegt og jafnvel hrokafullt. Þeir hafa heldur aldrei att neinum af sínum nemendum á foraðið til að taka upp hanskann fyrir þá. Við finnum þá hvöt algjörlega hjá sjálfum okkur.

Hvers konar umræðu viljum við?
Sigursteinn vísar í nafnlausa tölvupósta sem þola ekki dagsljós og einstök atvik máli sínu til stuðnings. Því er sú ályktun, að reglan í sálfræðiskor HÍ sé hroki og mannfjandsemi, hæpin. Kennurum við sálfræðiskor getur auðvitað orðið á eins og öðrum og auðvitað semur mönnum misvel án þess að við neinn sé að sakast. Það réttlætir ekki opinberar ásakanir um að hroki og mannfjandsemi ríki við skorina og að það sé viðvarandi. Er einhver kennari við HÍ sem allir eru ánægðir með?

Við óskum eftir sanngjarnri umræðu um málefni geðsjúkra og að málflutningur sé ekki byggður á útúrsnúningum, sleggjudómum og persónuárásum. Slíkt eru engum til bóta og við tökum ekki þátt í því. Sú umræða sem á undan hefur gengið er ekki boðleg.

Höfundar eru nemendur og fyrrverandi nemendur við sálfræðiskor HÍ.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

sátt við ykkur.
Sigga

Lilja sagði...

Mjög góð grein og málefnaleg!

Nafnlaus sagði...

Jubbí heyr heyr.
Meira sigja Éhg hifði ekki getaað urðað þjeta betur.
Gestur G