fimmtudagur, október 06, 2005

Geðveikin og Háskóli Íslands

Af bloggi Hörpu Hreinsdóttur. Harpa er íslenskukennari, gift Atla Harðarsyni heimspekingi.

Fyrir tilviljun slæddist ég inn á blogg gegnum RSS hvar frændi minn (ungur og óséður) rökræddi fyrirlestur Sigursteins Mássonar við ritstjóra þess bloggs. Hefði annars sennilega misst af þeirri frétt að Sigursteinn flutti víst reiðilestur við Háskóla Íslands, um sama háskóla, í hádeginu í dag. Nú þekki ég Sigurstein svo sem ekki neitt (utan þess að muna eftir honum sem ferlega óþægum þriggja ára krakka, leikandi við enn óþægari þriggja ára bróður minn og verð að segja, miðað við hvers lags bestíur þetta voru, að ótrúlega mikið hefur ræst úr þeim báðum síðan). Mér hefur hins vegar fundist margt gott sem Sigursteinn hefur gert í málefnum geðsjúkra ... en eitthvað hefur slegið út í fyrir honum ef Bylgjan hefur rétt eftir honum.

Fyrir það fyrsta finnst mér ansi ótrúlegt að um 22% nemenda við HÍ séu geðveik. Ég væri til í að trúa að 22% væru alkar, miðað við 25% karlmanna (rauntölur frá SÁÁ) og síhækkandi hlutfall kvenna (jafnréttið sýnir í þessu líka), má ætla að hluti sé þegar búinn að fara í meðferð og sjúkdómurinn ekki kominn á alvarlegt stig hjá stórum hluta ... en 22% allra handa geðveik? Ég held ekki. (Sigursteinn telur að a.m.k. 2.000 nemendur í HÍ séu geðveikir, skv. tölum Hagstofunnar stunduðu 8.932 nám við HÍ árið 2004 og þeim hefur varla fjölgað neitt gífurlega milli ára.) Aftur á móti kann að vera að 22% kennaranna séu geðveik, það er a.m.k. spennandi að velta því fyrir sér ;)

Við HÍ er engin geðheilbrigðisáætlun. Sjálfsagt er til bóta að hafa svoleiðis áætlun þótt ég eigi mjög erfitt með að sjá fyrir mér hvernig hún ætti að vera. Mér þykja þetta þó ekki fréttir því eftir því sem ég best veit er heldur engin meðgöngu- eða barnsfæðingaáætlun við HÍ, sennilega engin fíkla-meðferðar-áætlun, engin áætlun fyrir nemendur með brjósklos og vöðvabólgu o.s.fr. Má þó ætla að talsvert sé um óléttar konur, sniffandi fíkla eða bakveika nemendur innan HÍ. Hvaða ástæða er fyrir HÍ að hafa geðheilbrigðisáætlun, fremur en aðrir skólar hafa slíka áætlun? Eða vinnustaðir almennt?

Það að HÍ ýti undir geðsjúkdóma með óvingjarnlegu umhverfi og síum (numerus clausus) finnst mér tóm tjara. Ef nemandi höndlar ekki að sitja í stórum nýnemahóp af því kennarinn þekkir hann ekki og kennaranum virðist nokk sama um hann (sem er nokkuð augljóst ef kennarinn kennir 500 manns í einu í Háskólabíó) þá hlýtur sá nemandi að vera talsvert veikur fyrir. Það er varla á ábyrgð HÍ að passa slíkan nemanda (auk þess sem það er augljóslega ekki hægt). Mundi svoleiðis nemandi höndla að vinna í stóru frystihúsi? Mundi nemandinn ekki brotna jafn mikið og jafn auðveldlega niður ef hann þyrfti að vinna í bónusvinnu, þar sem greiðslur fara eftir afköstum? Mundi svoleiðis nemandi höndla það að kenna óþægum nemendum? Hvað mundi svoleiðis nemandi eiginlega höndla?

Sigursteinn gleymir því að HÍ tekur reyndar fjarskalega vel á móti nýnemunum sínum miðað við margan framhaldsskólann. Síðast þegar ég vissi þótti t.d. ekki við hæfi að hafa busavígslur í HÍ, slíkar eru vitaskuld misjafnar eftir skólum og eru ósköp meinlausar í mínum eigin skóla en ég gæti nefnt gjörsamlega nafnleyndan menntaskóla þar sem ég sá nemendur mæta með alvöru ljái og keðjusagir til að busa almennilega!

Í framhaldsskólum eru margir aðilar sem bera hag nemenda fyrir brjósti og reyna að liðsinna þeim í vanda, einnig vanda vegna geðraskana. Má nefna námsráðgjafa, forvarnarfulltrúa, e.t.v. félagsmálastjóra, heimavistarverði, almenna kennara, stjórnendur o.s.fr. Ekkert af þessu fólki er sérmenntað til handleiðslu geðsjúkra. Í framhaldsskólum eru engir skólasálfræðingar og reyndar hafa skólasálfræðingar í grunnskólum fæstir réttindi í klínískri sálfræði. Mér vitanlega reyna aðilar í framhaldsskólum að vísa verulega veikum nemendum á göngudeild Geðdeildar eða bráðamóttöku sömu deildar. Þegar fólk er komið í háskóla ætti það nú að hafa vit á að leita þangað sjálft, má líka nefna að Geðdeild Landspítalans (sem rekur göngudeild og bráðamóttöku) er í göngufæri við HÍ. Það eru betri aðstæður en flestir framhaldsskólar geta boðið upp á.

Nú er ég hreint ekkert á móti því að geðsjúkum sé hjálpað, fjarri því, enda er ég oft geðveik sjálf. Hver maður verður þó að taka ábyrgð á eigin heilsu að svo miklu leyti sem hann er fær um slíkt. Ef Sigursteini er mjög í mun að bæta aðbúnað geðsjúkra við HÍ, væri þá ekki snjallast að beita sér fyrir stofnun sjálfshjálparhópa innan stofnunarinnar? Víða í framhaldsskólum eru slíkir hópar starfræktir, líkast til oftast sjálfshjálparhópa alka og fíkla í bata en einnig eru til jafningjahópar nemenda með geðraskanir í sumum skólum. Langbesta stuðninginn er einmitt að fá frá þeim sem reynt hafa krankleikann á eigin kroppi og sál. Löðurmannlegar síur í námi eða móttaka nýnema með rós og saft mun engu breyta til eða frá fyrir hina sjúku.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heyrheyr!! Sigga rotta