Ný tækifæri í Háskóla Íslands
Þau Baldur Heiðar, Ella Björt, Heiða María, Sigrún Sif og Vaka, núverandi og fyrrverandi nemendur við sálfræðiskor Háskóla Íslands, bætast í hóp þeirra Andra Fannars og Kjartans og telja sig þess umkomin að gagnrýna fyrirlestur minn um geðheilbrigðismál í Háskólanum opinberlega án þess að hafa heyrt hann. Í grein fimmmenninganna í Morgunblaðinu 12. október byrja þau á því að fara rangt með heiti fyrirlestursins sem var "Háskóli Íslands - gróðrarstía geðraskana?" en þau taka ekki eftir spurningarmerkinu og telja því að um fullyrðingu hafi verið af minni hálfu að ræða. Þeir sem voru á fyrirlestrinum í HÍ vita að svo var ekki. Annað er eftir þessu í grein þeirra og því einfaldlega ekki svaravert. Það sem máli skiptir er að síðan fyrirlestur minn var fluttur og að honum gerður góður rómur af viðstöddum, m.a. forseta læknadeildar og starfsmönnum námsráðgjafar, hafa verulegar breytingar orðið í Háskólanum til hins betra. Gagnrýni mín snerist fyrst og fremst um skort á stuðningi við nýnema í HÍ, sérstaklega í fjölmennum deildum, og ég kallaði eftir geðheilbrigðisáætlun. Þetta hafa sumir viljað afbaka með þeim hætti að um persónulegar árásir á kennara hefði verið að ræða sem er gjörsamlega út í hött. Ég er þess meðvitaður að til eru kennarar sem vilja með öllu halda í óbreytt ástand og það er mér í sjálfu sér að meinalausu ef þeir taka gagnrýni mína persónulega til sín. Háskólarektor hefur nú í tvígang opinberlega lýst yfir vilja sínum að koma á geðheilbrigðisáætlun við stofnunina. 9.000 nemendur auk starfsmanna eiga kröfu á því að geðheilbrigðismál og viðbrögð við geðheilsuvanda séu til sífelldrar skoðunar. Ég fagna stuðningi rektors við þetta mál og treysti því að það hafi skjótan og öruggan framgang. Mánudaginn 10. október, á Alþjóðageðheilbrigðisdaginn, urðu einnig þau merku tímamót að stofnað var félag fólks innan HÍ með geðraskanir og áhugafólks um málefnið. Því er ætlað að vinna með háskólayfirvöldum að framförum á sviði geðheilbrigðismála, veita aðhald og annast hagsmunagæslu fyrir háskólafólk með geðraskanir. Þar með skapast ný tækifæri innan Háskólans að fylgjast með aðstæðum nemenda og leggja mat á ástandið í einstaka skorum. Ég treysti því að hið nýja félag, sem hlotið hefur nafnið Manía, verði haft með í ráðum við mótun geðheilbrigðisáætlunar í Háskólanum. Það er mikilvægt að allir átti sig á því að sú tíð er liðin að mótuð sé stefna í málefnum sjúkra og fatlaðra án beinnar þátttöku þeirra sjálfra. Þetta hefur verið tryggt í löggjöf sumra Norðurlandanna og það þarf að gerast hér líka en þangað til á Háskólinn að ganga á undan með góðu fordæmi. Það er von mín og trú að námsmenn framtíðarinnar muni njóta góðs af þeim nýju tækifærum sem nú blasa við í Háskóla Íslands og að þau leiði til meiri stuðnings og nýrra manneskjulegra viðhorfa.
SIGURSTEINN MÁSSON,
formaður Geðhjálpar.
1 ummæli:
Þú ert bara leiðinlegur sjálfur! Þpeþial!
Skrifa ummæli