þriðjudagur, mars 21, 2006

Kristinfræðikennsla

Mér hefur lengi fundist, og finnst enn, að kristinfræðikennsla í grunnskólum eigi lítinn rétt á sér. Þar sem trúfrelsi ríkir í landinu ætti annað hvort að halda trú fyrir utan grunnskólana eða kenna grunnskólanemendum frá upphafi um margs konar trú jafnt sem trúleysi.

Frekar mæli ég þá með almennri heimspekikennslu, með smá dass af sálfræði.

Viðbót:

Ég held að þetta snúist að miklu leyti um hlutverk skólans; hvert er það? Ég myndi telja að það væri að fræða, en ég tel líka að hlutverk skólans sé að kenna mönnum að efast. Efinn er mjög mikilvægur innan fræðasamfélagsins, án hans myndum við taka öllu sem góðu og gildu án þess að prófa það. Ég held því að það sé í lagi að fræða börn um trúarbrögð, en að það eigi líka að kenna þeim að taka trúarhugmyndum ekki sem heilögum sannleik heldur læra að vega þær og meta. Það er (eða a.m.k. var) ekki kennt í grunnskólum.

21 comments:

Guðmundur D. H. sagði...

Ég er sammála þér í þessu; kristnfræðikennsla í grunnskólum er tímaskekkja. Það er hægt að kenna svo margt annað mun gagnlegra en kristinfræði...

Nafnlaus sagði...

Þegar ég var í kristinfræði þá lærðum við um önnur trúarbrögð líka.

Heiða Dóra

Guðfinna sagði...

Ósammála! Ég vil alls ekki að kristinfræðikennslu verði hætt..En auðvitað á að bjóða upp á kennslu í öðrum trúarbrögðum líka..

gk sagði...

Það kann að vera að kristinfræðikennsla fari fyrir brjóstið á einhverjum,
og kannski vill fólk að henni verði hætt,
nú þegar við eignum að búa til í fjöl-menninga samfélagi með trú-frelsi.
Viljum við fara sömu leið og frakkar gera og banna öll merki um trú í skólum (krossa, Davíðs stjarna).
Þá er mín spurning sú hvar mundu við stoppa,
þarf ekki að breyta ísenska fánu, ég meina hann er ekkert nema stór kross.
Ég held að felst fólk sem er alfarið á móti kristinfræðslu, er á móti því að prinsip ástæðum frekan
en trúarlegu ástæðum.

Trúarbrögð og skóla

Nafnlaus sagði...

Það er nú ekki eins og það vanti trúnna í þjóðfélagið. Stjörnuspekingssálkuklarar, DNA stofnfrumuspjallarar, heilunarhálvitar, andaglasafrjóvgarar, forspákonur
u.z.w. Að sjálfsögðu vantar frekar efa en trú í þetta þjóðélag. Það má kenna börnunum það góða úr kristinni trú. Þann ágæta siðaboðskap sem bíblían hefur að geyma og allt annað gott og yndislegt sem ég kann ekki að nefna þrátt fyrir að hafa verið skólaður í þeim fræðum.

Alla malla kýs ég frekar að krökkunum mínum verði kennt að efast og gagnrýna í stað þess að trúa í blindni á mann sem gekk á vatni þrátt fyrir að vera með naglagöt í gegnum fæturna.

Gestur Prestur

baldur sagði...

Ok, þar sem ég held að ég sé sammála Guðfinnu að mestu leyti (ef ég skil hana rétt), þá hvet ég ykkur öll til að hafa í huga að trúarbrögð eru órjúfanlegur þáttur í menningu og sögu hverrar þjóðar. Með aukinni fjölmenningu eykst augljóslega krafan um að fræða börn með hlutlausum hætti um önnur trúarbrögð líka. Umburðarlyndi er líka augljóslega eitthvað sem skólinn á að innræta börnum (ég er ekki að losa foreldra undan þeirri ábyrgð).

En það á ekki að vera hlutverk skólans að frelsa börninin. Trúfélögin mega sjá um það. Það þýðir ekki að börnin eigi ekki að læra um trúarbrögð í skólanum (og jafnvel trúleysi - held samt að guðleysi sé meira réttnefni; það er ekki eins og ég trúi engu þótt ég trúi ekki á æðri máttarvöld). Þetta snýst um AÐSKILNAÐ ríkis og trúfélaga. Ég er ekki viss um að þið séuð öll sammála um hvað þið eruð að tala en mér sýnist umræðan sem er hér i gangi hvetja sumpart til TOGSTREYTU milli ríkis og trúfélag (eða vísinda og trúarbragða) og ég varpa fram þeirri spurningu hér hvort það sé ekki óþarfi. Allavega er til fjöldinn allur af trúuðum vísindamönnum sem ná að starfa á hvorum vettvangi fyrir sig án teljandi vandræða eða árekstra.

Guðfinna sagði...

Ég er sammála þér Baldur..Ég tel best fyrir börn að fá að kynnast öllu...Finnst bara verið að skerða fræðslu þeirra með að útiloka alla trú-kennslu úr náminu þeirra..Eins og þú bendir á þá eru trúarbrögð órjúfanlegur þáttur í sögu hverrar þjóðar og það er bara fáránlegt að komandi kynslóðir fái enga þekkingu um þennan stóra þátt samfélagsins (þó við Íslendingar séum nú reyndar meira eða minna trúlaus..) Ekkert okkar getur ákvarðað um hvað sé réttast að trúa á..Hver einstaklingur hefur rétt á að taka ákvörðun um það sjálfur og á því að fá hlutlausa fræðslu.. Vísindi eru ekkert heilagri en trú..Að halda öðru fram finnst mér bara vera hroki..Ef við viljum ekki að þeir öfga-trúuðu séu að troða sinni trú á okkur þá hafa hinir trúlausu heldur ekki rétt á að troða sínu trúleysi á hina trúuðu..Verður að vera jöfn virðing á báða vegu...

Heiða María sagði...

Það sem MÉR finnst hroki er eins og gert var í mínum grunnskóla; að byrja að kenna um önnur trúarbrögð en kristni þegar fólk var búið að taka ákvörðun um hvort það vildi fermast eða ekki (þ.e. í 8. bekk). Og aldrei var talað um trúleysi/guðleysi sem möguleika.

Guðmundur D. H. sagði...

Efi er líka gagnlegur í daglegu lífi, án tillits til vísinda eða trúarbragða.

baldur sagði...

Ég er sammála þér heiða að það er full seint að fræða fólk um aðra möguleika þegar búið er að krefja þá um að taka afstöðu til einna trúbragða eftir einhliða fræðslu. Það er samt á engan hátt möguleiki að mínu mati að fjarlæga þennan þátt úr námsskrá einmitt vegna þess hvað þetta er ríkur þáttur í hugmyndasögu og menningu okkar. Við verðum að þekkja sögu okkar ef við eigum að þekkja forsendur skoðana okkar (í siðferðismálum sem öðrum). En þá liggur auðvitað beinast við að fræða börnin um önnur trúarbrögð fyrr (og helst að undirstrika alla samnefnara til að auka umburðarlyndi) svo börnin geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort þeir vilji fermast inn í lúterska kirkju, taka upp einhverja aðra trú eða trúa bara alls ekki (á æðri máttarvöld).

Mér finnst vera bitur tónn hjá sumum hérna (sem er kannski skiljanlegt að einhverju leyti) en ég er ekki viss um að það sé vænlegt til árangurs beina biturðinni gegn kennslu í trúarbrögðum eins og um verbal trúarbragðastríð væri að ræða. Slökum á, skilgreinum vandann og ráðumst á hann þar sem hann er. Við hinir trúlausu höfum engan rétt til að skilgreina trúarlegar hugmyndir annarra sem vanda ef þær trufla okkur ekki og ef þær trufla bara þann sem hefur þær höfum við heldur ekki rétt til afskipta (það er meiriháttar prósess að fá ígegn sjálfræðissviptingu til að nauðungarvista fólk á geðdeildum). Þá erum við engu betur en mormónarnir sem við kvörtum um að trufli okkur við að svæfa börnin okkar eða í matmálstímum. Ég árétta punktinn um að við þurfum að aðskilja ríki og kirkju en það er engin ástæða, og meir að segja hættulegt, að efna til togstreitu. Það er ekki í anda trúfrelsis.

Asdis sagði...

Það er náttúrulega major hræsni að kenna um önnur trúarbrögð en kristni þegar börnin eru búin að fermast (sem oftar en ekki, held ég, þau geri út af gjöfunum og ofsalega uppistandinu í kringum fermingarnar hér á Eyðslulandi). Hér er ekki aðskilnaður ríkis og kirkju og á meðan það er finnst mér ósköp eðlilegt að "kristinfræði" sé kennd í skólum. Mér finnst hins vegar ekki eðlilegt að hér sé ríkiskirkja.

Ég gerði það að gamni mínu að fletta upp í skólanámsskrá Kársnesskóla og þetta er markmiðið með kristinfræði í 5. bekk í dag:

Að nemendur
- kunni skil á sögunni um Móse og ferðinni frá Egyptalandi til fyrirheitna landsins Kanaanslands
- læri um boðorðin 10 og merkingu þeirra
- læri um hugmyndir Gyðinga um Messías og hvernig Jesú heimfærði það á sjálfan sig
- læri um ævi Jesú frá 12 ára aldri
- kynnist völdum sögum af lækningakraftaverkum Jesú
- kanni merkingu aðventunnar í kristnu jólahaldi
- fáist við efni tengt sáttfýsi og fyrirgefningu

Og ég tók líka eftir því að "önnur trúarbrögð" eru ekki nefnd í námsskránni fyrr en í samfélagsfræði í 8. bekk. Það fer kannski að koma tími á að leggja til að trúarbragðafræði verði kennd í grunnskólum landsins. Mæli með því! Það hlýtur að kallast trúarbragð að vera trúleysingi, er það ekki? Það er bara einn parturinn af flórunni, allavega í mínum augum.

Heiða María sagði...

Já, þetta er áhugaverður listi, Ásdís! Ætli ég myndi ekki kolfalla í kristinfræði, hahaha.

Heiða María sagði...

Ætla samt að bæta því við að jafnvel þótt ég skilgreini mig sem trúleysingja hef ég áhuga á trúarbrögðum, og hef verið að dunda við að hlusta á nýja testamentið á hljóðbók. Eins og ég hef einhvern tíma sagt áður finnst mér Jesús merkilegur heimspekingur þótt ég trúi því ekki að hann hafi verið sonur guðs.

baldur sagði...

Mig minnti nú samt að þú værir satanisti.

Heiða María sagði...

Haha, já, ég er alltaf að gleyma því *snýr sér aftur að dýrafórnunum*

Guðmundur D. H. sagði...

Ekki taka mér sem einhverjum leiðindapésa, en ég verð að gera athugasemd; trúarbragð er ekki orð - það er orð sprottið uppúr einhverri vitleysu. Orðið trúarbrögð er bara til í fleirtölu.

Þetta er hryllilega algengt og ég gat ekki staðið á mér ;)

Heiða María sagði...

Trúarbragð er kannski nýjasta bragðtegundin, nýrri en umami (bragðið af MSG) :) Eða þá að þetta sé svona bragð eins og trick, að það sé alltaf verið að reyna að plata mann með einhverju trúarbragði ;)

Nafnlaus sagði...

Þar hittirðu el nagló á la höfuðó
...alltaf verið að reyna að plata mann með einhverju trúarbragði ;)

Gestur prestur

baldur sagði...

Í tilefni af þessari umræðu. Tékkið á þessari slóð. Það varð smá innsláttarvilla þegar ég ætlaði að skoða síðuna okkar.

http://www.kjallararottu.blogpsot.com

Heiða María sagði...

Ahahahahahaha :'D

Nafnlaus sagði...

Ef þetta er ekki skilaboð að ofan frá hinum allra flottasta þá veit ég ekki hvað. Sennilega verið að beina okkur trúvillingunum á rétta braut :(

Ég vona bara að það sé ekki of seint. Sé ykkur svo í messu á sunnudaginn
Gestur Prestur