laugardagur, mars 18, 2006

Ógleði og hjálparleysi

Ég var staddur í háskólabíói í dag á fundi sem þjóðarhreyfingin stóð fyrir. Þessi fundur var ágætis hugvekja um Írak og allt það. Fólk að tala og segja alskonar gáfulega hluti sem við erum náttúrulega öll búin að heyra og ég nenni ekki að hafa eftir hér, þótt góð vísa sé auðvitað aldrei of oft kveðin. Það sem situr helst eftir af þessum fundi eru samt áhrif kvikmyndar eftir Ara Alexander þar sem hann sýndi allan viðbjóðinn sem við fáum aldrei að sjá. Skefjalaust ofbeldi í sinni ógeðslegustu mynd, nauðganir og limlestingar. Það er meðvituð stefna (hver svo sem ber ábyrgð á henni) að sýna þetta ekki því það gæti raskað ró viðkvæmra sálna. Önnur rotta var þarna með mér og varð svo flökurt að hún varð að fara heim og jafna sig. Ég hélt áfram og fór á mótmælandafund á Ingólfstorgi. Ónotatilfinningin kom að mér með miklu lúmskari hætti, smátt og smátt. Mér er fyrst núna að flökra við þessu en það sem er ennþá óþægilegra er hjálparleysið. Ég fæ það stöðugt sterkar á tifinninguna að það er nánast ekkert hægt að gera til að breyta fólki og þetta mun viðgangast á meðan fólk velur að horfa fram hjá viðbjóðinum. Ari Alexander kynnti myndina með þeim orðum að hann hafði staðið í siðferðisbaráttu við sjálfan sig þegar hann var að taka ákvörðunina um að gera þessa mynd. Er siðferðislega réttlætanlegt að sýna þenna viðbjóð viðkvæmu fólki? Einhver blaðaljósmyndari sagði einhverntímann að ef þeir hefðu birt allt það sem þeir verða vitni að á vígvöllunum væru sennilega engin stríð. Fólk myndi aldrei leggja blessun sína yfir þau ef það raunverulega vissi hvað færi þar fram. Ég held þetta sé rétt hjá honum og legg því blessun mína yfir þessa mynd. Það á að sýna allan viðbjóðinn! Ég óttast samt að ritstjórnarstefnur fréttamiðla sé ekkert að fara að breytast hvað þetta snertir og þess vegna er hjálparleysi versta ónotatilfinningin. Þessu er sennilega ekkert að fara að linna og það er ekkert sem við getum gert annað en að hópast saman á torgum og veifa fánum og bannerum. Við getum þó gert það og þar sem pupulinn er yfirleitt fljótur að gleyma er það ánægjulegt hversu margir voru í háskólabíói og á Ingólfstorgi (hefðu svo sem mátt vera fleiri þar) í dag. Stútfullur salur af fólki sem er ekki búið að gleyma því, þrátt fyrir að þrjú ár eru liðin, að um leið og ráðamenn okkar þjóðar studdu árasarstríð Bandaríkjanna, þá gerðu þeir alla þjóðina samseka um hrottalegan glæp. Ég hugsa samt að fæstir geri sér í raun grein fyrir hversu hrottalegur hann er og því er kannski sannleikskorn í því sem einhver sagði um þá Davíð og Halldór að guð fyrirgefi þeim því þeir vita ekki hvað þeir gjöra, en þjóðin fyrirgefi þeim ekki.

2 ummæli:

Guðfinna sagði...

Ég hefði viljað vera þarna..Átt að taka mig með á svona samkomur!!

baldur sagði...

Sorry, vissi ekki af þessu fyrr en korteri áður en þetta byrjaði og var þá þunnur á brókinn að reyna að hafa mig framúr. Man eftir þér næst.