laugardagur, nóvember 12, 2005

Jafnrétti?

Ég var að flétta Mogganum í morgun yfir kaffibollanum og rak augun í fyrirsögnina "Fleiri konur eða lokað ella" Fyrsta sem ég hugsaði var ..Glætan ekki er Moggin farinn að hjálpa til við að auglýsa eftir starfsfólki á Goldfinger!!! Ætlaði að verða soldið móðguð fyrir hönd kynsystra minna, en jafnframt fegin að líklega væri þá ekki mikið um innflutning á stelpugreyjum fyrst þyrfti að loka... En svo las ég greinina og hún eiginlega pirraði mig meira. Þó ég sé vitanlega á móti því að nota eigi líkama kvenna (jahh og karla reyndar líka) í gróðaskyni, nema hana langi það rooosa mikið, sem ég tel að séu nú undantekningartilvik.

Nei greinin fjallaði um jafnrétti á vinnustað og fjölgun kvenna í stjórnunarstöðum.
"Norska stjórnin hótaði í gær að loka þeim fyrirtækjum sem ekki sæju til þess að í stjórnum þeirra væri hlutur kvenna að minnsta kosti 40%. Var þeim gefinn tveggja ára frestur eða til ársloka 2007" Moggin, laugardagur 12. nóv, bls. 20.

Er fólk ekki að grínast?? Er kvótakerfið ekki úrelt??? Ég verð allavega að segja ef ég verð einhvern tíman ráðin í stjórnunarstöðu þá vil ég að það sé vegna framúrskarandi hæfileika minna og góðrar menntunar. Ekki vegna þess að ég er með leg!! Það væri kannski ásættanlegt ef ég ætlaði að sækja um vinnu á Goldfinger að kynferði mitt skipti máli en ekki í stjórnunarstöðu!! Er Goldfinger í alvöru staður sem á að taka til fyrirmyndar??!!!
Mér finnst þetta svo mikil afbökun á jafnrétti að það nær engri átt.
Eins og ég sé hina fullkomnu framtíð fyrir mér þá er jafnrétti þannig að þegar þú sækir um vinnu skipti ekki máli hvort þú sért kall eða kona, sá hæfari er ráðinn!!!
Gerum smá svona "thought experiment" Ímyndaðu þér að þú sitjir í stjórn fyrirtækis. Fyrirtækið fær skipun um að ráða konu. Hæf kona er ráðin (því vitanlega eru þær fjölmargar til). Myndiru vera jafn sannfærð/ur um hæfni hennar þegar hún er ráðin á þennan hátt og þegar hún er ráðin án tillits til kynferðis? Ég held að sú kona sem er ráðin vegna kynferðis þurfi að leggja meira á sig til að sanna sig í starfi en hin sem er ráðin eingöngu vegna hæfni hennar. Að maður tali ekki um vandræðin sem munu koma þegar mistök eru gerð í ráðningu og konan er ekkert sérstaklega hæf! Munu þá aðrir líklega kenna þessu frumvarpi um "ef þeir hefðu bara fengið að ráða kall í friði væri þetta betra" Líklegt er að þetta alhæfist yfir á allar konur sem ráðnar eru vegna þessa frumvarps, þó megi gera ráð fyrir að hlutfall hæfra og óhæfra sé svipað hjá konum og körlum.

Nú skal ég viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér þetta mál neitt og byggi þessi skrif eingöngu á mínum skoðunum og kvennlegu innsæi. Ef einhver getur bent mér á góð rök fyrir þessu kvótakerfi og hvernig komið verði í veg fyrir að hæfar konur sem ráðnar eru vegna þessa lendi í tortryggin þá vil ég endilega heyra það.
Að lokum vil ég spyrja hvort einhver hafi hugmynd um hvort konur hafi eins mikinn áhuga á stjórnunarstörfum og karlar??

9 ummæli:

Sigga sagði...

ekki spyrja mig afhverju þessi eyða sé efst...

Heiða María sagði...

Veistu, ég er pínu sammála þér bara, kvótakerfi finnst mér vera að ganga út í öfgar.

Aftur á móti finnst mér að beita ætti sér fyrir því að "kvennastörf", svo sem umönnunarstörf, verði metin til jafns við "karlastörf", svo sem stjórnun. Eða hvort er mikilvægara, að annast börn, fatlaða og gamalmenni, eða stjórna fyrirtækjum?

baldur sagði...

HAHAHA

Sóley sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Sóley sagði...

spurning hvort að það þurfi ekki bara til að byrja með, þannig að hefð myndist fyrir því að konur stjórni alveg eins og hefð er fyrir því að karlar stjórni. þannig verða menn (kvenn- og karl-) þvingaðir til að sjá hvað er hægt þar til það verður eðlilegt.

Heiða María sagði...

Það er hugmyndin að baki þessu held ég, Sóley, og ég skil hana að vissu leyti. Ég er bara hrædd um að planið "backfire" og þetta skapi andúð í staðinn (sbr. "helvítis femínistatussur sem nenna ekki að vinna og hata karlmenn").

Sóley sagði...

en af hverju backfirer það, er það vegna þess að það er glatað eða er það vegna þess að fólk streitist svona mikið á móti "breytingum"?

Heiða María sagði...

Svolítið af hvoru held ég. Mér finnst ekki jafnrétti að einhver fái eitthvað fram yfir annan einungis sökum kynferðis; ef við erum aftur á móti að tala um JAFNHÆFAR manneskjur á alltaf að ráða þá sem er í minnihluta í viðkomandi starfsstétt.

Mér finnst betra að fara aðrar leiðir, t.d. umbuna fyrirtækjum með virka jafnréttisáætlun, tala upp nafnlausar mannaráðningar (þar sem maður sér ekki kynferði þess sem maður kallar í viðtöl, t.d.), hvetja karla til að fara í kvennastörf og konur í karlastörf, t.d. með aukinni fræðslu eða umfjöllun um fyrirmyndir, t.d. karla á leikskólum eða konur í bissness o.s.frv.

Salvor sagði...

Við margar mannaráðningar reyna vinnuveitendur að meta umsækjendur miðað við þá færni og eiginleika sem þeir koma með til starfans. í flestum velreknum fyrirtækjum í dag er lögð áhersla á fjölbreytni þ.e. að stjórnendur endurspegli að einhverju leyti það samfélag sem fyrirtækið starfar í. Ef við trúum því að hæfileikum sé jafnt stráð á konur og karla, jafnt stráð á hvítt fólk og blökkumenn þá getum við ekki annað er litið með tortryggni á kerfi þar sem í stjórnunarstöðum eru bara karlmenn og þar sem í stjórnunarstöðum er bara fólk af einum kynþætti. Það er birtingarmynd óréttlætis. Kyn er verðleiki og eiginleiki eins og margt annað - eins og kynþáttur eða þjóðernisuppruni. Ég kom inn á landsfund félags útvegsmanna fyrir nokkrum árum, þar voru nokkur hundruð karlmenn en engin kona sjáanlega. Þetta er fólkið sem stýrir íslenskum auðlindum, auðlindum sem tiltekið er í stjórnarskrá að séu sameign þjóðarinnar. Er nokkuð athugavert þó við spyrjum hvers vegna helmingur þjóðarinnar sé víðsfjarri þegar kemur að því að stýra ágóðanum og notkun á auðlindum þjóðarinnar?