fimmtudagur, mars 30, 2006

Stúdentagarðar

Fengum inni á stúdentagörðum :) Íbúðin er að vísu pínulítið, hugsanlega jafnvel minni en okkar núna. En hún er í göngufæri við Háskólann, sem munar ótrúlega miklu fyrir okkur. Og hún er með baðkari. Þið getið ekki ímyndað ykkur hversu mikill munur það verður fyrir mig að þurfa ekki alltaf að fara í sturtu, ég hata sturtu. Ég fer nokkrum sinnum í viku til ma og pa, stundum bara til að geta farið í bað, heh.

En ef við segjum já flytjum við sem sagt bara eftir tvær vikur eða svo.

Og já, ég verð í sjónvarpinu á morgun, nánar tiltekið í Íslandi í bítið. Þarf að mæta kl. 07:15 um morguninn :S Úff og púff, það er ekki beint "my thing" að vakna snemma.

þriðjudagur, mars 21, 2006

Kristinfræðikennsla

Mér hefur lengi fundist, og finnst enn, að kristinfræðikennsla í grunnskólum eigi lítinn rétt á sér. Þar sem trúfrelsi ríkir í landinu ætti annað hvort að halda trú fyrir utan grunnskólana eða kenna grunnskólanemendum frá upphafi um margs konar trú jafnt sem trúleysi.

Frekar mæli ég þá með almennri heimspekikennslu, með smá dass af sálfræði.

Viðbót:

Ég held að þetta snúist að miklu leyti um hlutverk skólans; hvert er það? Ég myndi telja að það væri að fræða, en ég tel líka að hlutverk skólans sé að kenna mönnum að efast. Efinn er mjög mikilvægur innan fræðasamfélagsins, án hans myndum við taka öllu sem góðu og gildu án þess að prófa það. Ég held því að það sé í lagi að fræða börn um trúarbrögð, en að það eigi líka að kenna þeim að taka trúarhugmyndum ekki sem heilögum sannleik heldur læra að vega þær og meta. Það er (eða a.m.k. var) ekki kennt í grunnskólum.

laugardagur, mars 18, 2006

Ógleði og hjálparleysi

Ég var staddur í háskólabíói í dag á fundi sem þjóðarhreyfingin stóð fyrir. Þessi fundur var ágætis hugvekja um Írak og allt það. Fólk að tala og segja alskonar gáfulega hluti sem við erum náttúrulega öll búin að heyra og ég nenni ekki að hafa eftir hér, þótt góð vísa sé auðvitað aldrei of oft kveðin. Það sem situr helst eftir af þessum fundi eru samt áhrif kvikmyndar eftir Ara Alexander þar sem hann sýndi allan viðbjóðinn sem við fáum aldrei að sjá. Skefjalaust ofbeldi í sinni ógeðslegustu mynd, nauðganir og limlestingar. Það er meðvituð stefna (hver svo sem ber ábyrgð á henni) að sýna þetta ekki því það gæti raskað ró viðkvæmra sálna. Önnur rotta var þarna með mér og varð svo flökurt að hún varð að fara heim og jafna sig. Ég hélt áfram og fór á mótmælandafund á Ingólfstorgi. Ónotatilfinningin kom að mér með miklu lúmskari hætti, smátt og smátt. Mér er fyrst núna að flökra við þessu en það sem er ennþá óþægilegra er hjálparleysið. Ég fæ það stöðugt sterkar á tifinninguna að það er nánast ekkert hægt að gera til að breyta fólki og þetta mun viðgangast á meðan fólk velur að horfa fram hjá viðbjóðinum. Ari Alexander kynnti myndina með þeim orðum að hann hafði staðið í siðferðisbaráttu við sjálfan sig þegar hann var að taka ákvörðunina um að gera þessa mynd. Er siðferðislega réttlætanlegt að sýna þenna viðbjóð viðkvæmu fólki? Einhver blaðaljósmyndari sagði einhverntímann að ef þeir hefðu birt allt það sem þeir verða vitni að á vígvöllunum væru sennilega engin stríð. Fólk myndi aldrei leggja blessun sína yfir þau ef það raunverulega vissi hvað færi þar fram. Ég held þetta sé rétt hjá honum og legg því blessun mína yfir þessa mynd. Það á að sýna allan viðbjóðinn! Ég óttast samt að ritstjórnarstefnur fréttamiðla sé ekkert að fara að breytast hvað þetta snertir og þess vegna er hjálparleysi versta ónotatilfinningin. Þessu er sennilega ekkert að fara að linna og það er ekkert sem við getum gert annað en að hópast saman á torgum og veifa fánum og bannerum. Við getum þó gert það og þar sem pupulinn er yfirleitt fljótur að gleyma er það ánægjulegt hversu margir voru í háskólabíói og á Ingólfstorgi (hefðu svo sem mátt vera fleiri þar) í dag. Stútfullur salur af fólki sem er ekki búið að gleyma því, þrátt fyrir að þrjú ár eru liðin, að um leið og ráðamenn okkar þjóðar studdu árasarstríð Bandaríkjanna, þá gerðu þeir alla þjóðina samseka um hrottalegan glæp. Ég hugsa samt að fæstir geri sér í raun grein fyrir hversu hrottalegur hann er og því er kannski sannleikskorn í því sem einhver sagði um þá Davíð og Halldór að guð fyrirgefi þeim því þeir vita ekki hvað þeir gjöra, en þjóðin fyrirgefi þeim ekki.

þriðjudagur, mars 14, 2006

Sálfræðistjörnuspeki

Nei ég er ekki að leika mér að orðum.. þetta er víst komið á klakann! sálfræðistjörnuspeki!! ég á ekki til neitt einasta orð yfir svona löguðu.. vísa því frekar í grein í kjaftæðisvaktinni sem var skrifuð á vantru.is!!

Og eitt svona til hugleiðingar..
Eru ekki til viðurlög við því að kalla sig sálfræðing hér á landi en vera það ekki.. eða er nóg að bæta við bulli fyrir framan eða aftan "sálfræðing" til að komast hjá viðurlögum? Mér finnst þetta mjög alvarlegt mál og enn og aftur er verið að draga okkar ágætis nám niður í skít fáfræðinnar..

Að lokum smá tilvitnun í greinina:
"Bjarndís telur þá kosti sem sálfræðistjörnuspekingar hafa, umfram hefðbundna sálfræðinga, að með því að geta kannað stjörnukort fólks sé mun auðveldara að komast að meininu og vonast hún innilega til þess að fólk fari að nýta sér þessi fræði í ríkara mæli."


Viðauki..
Ég fór á netið og athugaði með umrædda DV frá s.l laugardegi og las þetta ótrúlega spes viðtal við Bjarndísi.. Skemmtilegast fannst mér þó að lesa það sem hún segir um námið sitt..
"Námið tekur þrjú ár og segir Bjarndís að meðan á því stendur verði nemendur að gangast undir árslanga þerapíu til að þeir geti kynnst sjálfum sér og unnið sem best út úr sínum vandamálum"

laugardagur, mars 11, 2006

GRE búið

Gekk illa á GRE. Verr en ég bjóst við, meira að segja... Nema á ritgerðunum, gekk ágætlega þar. En þetta er frekar ömurlegt, eftir allan þennan undirbúning og vesen. Hryllir við að taka þetta aftur ef þess þarf. Veit meira að segja ekki hvort það skipti nokkru máli, aðalvandamálið er nefnilega hraði. Ég get bara ómögulega gert þetta svona hratt. Í stærðfræðihlutanum voru allnokkrar spurningar sem ég náði ekki einu sinni að lesa, hvað þá að reikna. Svo jafnvel þótt ég taki þetta aftur er ekkert sem tryggir að einkunnirnar hækki.

Ég er frekar flatgeðja núna, er ekki beint leið en mjög apathetic bara, langar ekki að gera neitt sérstakt en langar heldur ekki að gera ekki neitt. Finnst þetta allt hafa verið til einskis. Held að ég sé búin að sanna tilgátuna hans Seligmans um lært hjálparleysi.

Eina skemmtilega atvikið í dag var að maður á línuskautum kom upp að mér, bað mig um koss og gaf mér svo rós á meðan félagar hans stórskemmtu sér við að taka myndir af þessu öllu saman. Greinilega verið að steggja.

Ég hef því núna: þreytu, flatt geð, lært hjálparleysi, að öllum líkindum ömurlegar GRE-einkunnir, og rós.

fimmtudagur, mars 09, 2006

Hugarorka

Nú er hægt að skrifa á tölvu með hugarorku. Magnað. Sjá hér.

Rökvillur

Þar sem ég er þessa stundina að æfa mig í að koma auga á rökvillur ætla ég að birta yfirlit yfir nokkrar þeirra algengustu hér. Heimildir eru aðallega af Vantrú.is og Wikipediu.

1. Vísun í kennivald (appeal to authority):
Þegar því er haldið fram að eitthvað sé satt vegna þess að tiltekin manneskja heldur því fram. Dæmi: Britney Spears notar Colgate tannkrem, því hlýtur Colgate að vera betra en önnur tannkrem. Vísun í kennivald er sérstök tegund af Vísun til uppruna (genetic fallacy) þar sem skoðun er dæmd eftir uppruna hennar. Dæmi: Samkynhneigð er slæm vegna þess að það stendur í Biblíunni.

2. Post hoc rökvillan (post hoc fallacy):
Það að halda að það A komi á eftir B sanni að A orsakist af B. Dæmi: Ég varð kvefuð og tók sólhatt. Tveimur vikum seinna var mér batnað af kvefinu. Þar af leiðandi hlýtur sólhatturinn að hafa læknað mig. Post hoc rökvillan er í raun dæmi um að fylgnisamband sé ekki endilega orsakasamband (correlation is not causation).

3. Fáfræðirökleiðslan (argument from ignorance):
Þegar haldið er fram að eitthvað geti ekki verið satt því það sé ekki búið að sanna það, eða að eitthvað geti ekki verið ósatt vegna þess að það sé ekki búið að hrekja það. Þetta er rökvilla því "absence of evidence is not evidence of absence". Dæmi: Þú getur ekki sannað að Guð sé til. Þess vegna er hann ekki til eða Þú getur ekki afsannað að Guð sé til. Þess vegna hlýtur hann að vera til.

4. Klasavillan (cluster illusion):
Að halda að tilviljanakenndir atburðir sem gerast aftur og aftur séu í raun ekki tilviljanakenndir. Dæmi: Ég fékk sexu fimm sinnum í röð í spilinu. Ég hlýt að kasta teningnum svona frábærlega vel.

5. Persónuárásarvillan (ad hominem):
Þegar reynt er að gera lítið úr fullyrðingu með því að ráðast á persónu þess sem heldur henni fram. Dæmi: Hildur er á móti stríði en það er ekkert hægt að taka mark á henni, hún er bara barn og skilur ekki neitt.

6. Sök vegna tengsla:
Að segja að eitthvað sé rangt vegna tengsla við eitthvað slæmt, yfirleitt að slæmur maður hafi haldið því sama fram. Dæmi: Nasistar dýrkuðu skoðanir Friedrichs Nietzsches, þezs vegna hljóta þær að vera rangar og ógeðslegar.

8. Rökvilla brunnmígsins:
Að gera lítið úr skoðunum annars með því að draga fyrirfram úr sannfæringarmætti hans. Er skylt persónuárásarvillunni. Dæmi: Nú tekur til máls ofstækismaðurinn Gunnar í Krossinum.

9. Að gleyma undantekningunni (accident, destroying the exception):
Rökvilla þar sem aðeins er dregin ályktun út frá almennri reglu en undantekningarnar gleymast. Dæmi: Allir sem aka of hratt eru ökuníðingar. Lögreglan ekur yfir hraðamörkum. Þar af leiðandi hljóta lögreglumenn að vera ökuníðingar (lögreglubílar eru undanþegnir reglunni um hámarkshraða).

10. Að álykta út frá undantekningunni (converse accident):
Að draga almenna ályktun út frá undantekningu á reglu. Dæmi: Sumir misnota áfengi. Því ætti áfengi að vera bannað.

11. Óviðkomandi niðurstaða (ignoratio elenchi):
Þegar ályktanir leiða ekki af þeim rökum sem gefin voru og eru þeim í raun alveg óviðkomandi. Dæmi: Það er mikið að þessu þjóðfélagi. Þess vegna ættum við öll að fara að hugsa meira um siðferðismál.

12. Afvegaleiðing, "rauða síldin", "gulrótin" (red herring):
Er sértilfelli af óviðkomandi niðurstöðu, þar sem reynt er að afvegaleiða fólk viljandi, veifa svo að segja gulrót fyrir framan nefið á þeim. Dæmi: Við höfum kannski ekki staðið við loforð um skattalækkanir en sjáiði bara formann hins flokksins! Ég hef staðfestar heimildir um að hann gangi í kvenmannsnærfötum!

13. Hringavitleysan (begging the question):
Þegar einhverju er haldið fram, ályktun er dregin af því og ályktunin svo notuð til að styðja upprunalegu forsenduna. Dæmi: Styrkir er það sem styrkir hegðun (þetta er allavega mjög nálægt því að falla undir hringavitleysu).

sunnudagur, mars 05, 2006

Arrrrrg!!

Djöfulsins, helvítis, ógeðis GRE! Hvernig er HÆGT að ætlast til þess að maður geti leyst 30 stærðfræðidæmi á 30 mínútum?!? Mér er alveg sama hversu auðveld þessi stærðfræði er í raun, ég er fracking mínútu að svo mikið sem LESA spurninguna!!!!!!!!!

*Angist*

The seeming pointlessness of the GRE...



"Piled Higher and Deeper" eftir Jorge Cham
www.phdcomics.com

Tilvitnun dagsins

Not a single one of the cells that compose you knows who you are, or cares.


Daniel Dennett (Sweet Dreams: Philosophical Obstacles to a Science of Consciousness, MIT Press, 2005)

laugardagur, mars 04, 2006

Kattaþjálfari

Skemmtileg fréttin á Rúv áðan..það var verið að segja frá rússa sem er með Katta sirkus og það er nú ekki algeng sjón að sjá ketti hlýða.. Hann segir að þetta sé ekkert mál og jafnvel hægt að nota þjálfunaraðferðir sínar a börn..
Hvernig eru þessar aðferðir.. jú hann fylgist með dýrinu í einhvern tíma og finnur út meðfædda eigineika hjá kettinum sem hann hvetur köttinn til að skara fram úr í....

haha

Loksins var ég klukkuð!

4 störf sem ég hef unnið um ævina

1. Barnapía (ég var mjög eftirsótt)
2. Umsjónarmaður mjólkurkælis Nóatúns (brrrr)
3. Vaktstjóri í 10-11
4. Símasölumaður (ég entist eina vakt)

4 bíómyndir sem ég get horft á aftur og aftur

1. Lord of the Rings þríleikurinn
2. Contact
3. Mary Poppins
4. Spirited Away (Sen to Chihiro no Kamikakushi)
[Innskot: Ég get eiginlega horft á allar myndir aftur og aftur þar sem ég gleymi þeim alltaf inn á milli, Björn getur vottað það.]

4 staðir sem ég hef búið á

1. Furugrund, Kópavogi
2. Kämnärsvägen, Lundi
3. Básenda, Reykjavík
4. Sogavegi, Reykjavík

4 sjónvarpsþættir sem mér líkar

1. Battlestar Galactica (get ekki beðið eftir næsta þætti!)
2. Lost (pirrandi þættir sem maður týnist samt í)
3. Desperate Housewifes (bíð samt ekki jafn ákaft eftir þeim og hinum)
4. Fraiser (dett af og til inn í hann)

4 síður sem ég skoða daglega

1. Kjallararottur (oft á dag)
2. Vísindavefurinn (náttúrulega)
3. Wikipedia
4. Pósturinn minn (oft á mínútu, ég sver!)

4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum

1. Vestmannaeyjar (var í fýlu allan tímann)
2. Hróarskelda (2000 og 2001, mig langar aftur) og Álaborg (pöbbagatan er æði!) í Danmörku
3. London (dýr borg, úff, en sá Chicago á sviði sem var geðveikt) í Englandi
4. Utrecht (vonandi rétt skrifað, skemmtileg háskólaborg með furðulegu spiladósasafni) og Amsterdam (sá tvítóla "gellu" í rauðum glugga, fórum á kynlífssafn, allt fullt af reiðhjólum) í Hollandi

4 matarkyns sem ég held upp á

1. Íslensk kjötsúpa
2. Frönsk kjötsúpa
3. Kjötbollur og kartöflur með brúnni sósu
4. Nautasteik á Argentínu

4 staðir sem ég vildi heldur vera á núna

1. Í heitu freyðibaði með góða bók
2. Með Ellu í Frakklandi, sötrandi rauðvín og borðandi fína, dýra osta
3. Í nuddi
4. Í Hogwarts :D

Ég klukka: Guðnýju, Jóa, Heiðu Dóru og Ellu Björt!

fimmtudagur, mars 02, 2006

Hvað ætlið þið eiginlega að gera?

Lesendur þessarar síðu: Hvað ætlið þið eiginlega að gera? Hverju stefnið þið að í námi og starfi? Ég er bara forvitin.

Næst á dagskrá hjá mér sjálfri er doktorsnám í x (x er enn óþekkt stærð) í BNA haust 2007, og Björn Leví stefnir á masters í tölvunarfræði eða einhverju skyldu fagi, vonandi og væntanlega á svipuðum stað og ég sjálf. Ella Björt ætlar í doktorsnám í taugasálfræði og Olga í verkfræði; báðar fara til BNA í haust.

Aðrir fyrir mér eru sem óskrifað blað, ég veit allavega ekki mikil deili á þeirra framtíðarplönum. Svo endilega uppfræðið mig og aðra.

Ammli

Til hamingju með afmælið Vaka mín :) Veit ekki hvort þú sjáir þetta þar sem þú ert úti núna.

miðvikudagur, mars 01, 2006

Fyrir þau vinnusinnuðu en ráðvilltu

Ég var að fara í gegnum Muchinsky þegar ég rakst á þessa síðu. Þar má finna nákvæma greiningu á hverju starfi fyrir sig, hvaða kunnáttu þarf til þess að gera það, hvað er innifalið í starfinu o.s.frv. Fyrir ykkur sem eru að velta fyrir ykkur störfum þá er þetta fyrirtakssíða til þess að kíkja á.