þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Uss, uss, uss, vantar meiri umræður!

Nú hef ég verið að lesa bók sem heitir Visible Thought eftir Geoffrey Beattie. Þar er talað um að líta megi á handahreyfingar sem tungumál út af fyrir sig, og er þá átt við ósjálfráðar handahreyfingar sem eru gerðar þegar fólk er að tala. Beattie segir í bókinni að þær gegni því hlutverki að leggja áherslu á, skýra eða jafnvel neita orðunum sem verið er að segja. Nú beini ég spurningu til ykkar hinna, hvaða afstöðu þið hafið í þessu máli. Teljið þið að handahreyfingar segi eitthvað meira en orðin sem þið eruð að segja?

Ég vil jafnframt leggja áherslu á að hér er ekki átt við líkamstjáningu, sem almenningssálfræðin segir að gefi til kynna samband á milli fólks, og ekki táknmál heldur.

12 ummæli:

Heiða María sagði...

Humm, ég skal ekki alveg segja. Ég held vissulega að við gefum í sumum tilfellum skilaboð með höndum, en hvorki mikil né flókin. Þegar manni líkar illa við eitthvað heldur maður höndunum til dæmis frá sér, rétt eins og maður vilji ýta óþægindunum frá sér. Eitthvað slíkt...

Árni Gunnar sagði...

Ég er heldur ekki alveg viss um hvað málið snýst, en eins og ég skil þetta, eða skil ekki, þá þykir mér fráleitt að líta á handarhreyfingar sem sér (tungu)mál. Ég held að þær hljóti að vera háðar tungumálinu og geti aðeins staðið einar þegar búið er að mynda síendurtekin tengsl við tungumálið.

baldur sagði...

Þetta er auðvitað ekki táknmál í neinum málvísandalegum skilningi, því það vantar alla málfræði í það. En það að veifa vísifingri til að leggja þá áherslu að maður sé ekki að tala um eitthvað tiltekið er klárlega merkingarbært. Annars væri maður ekki að gera það "til þess að" leggja áherslu á eitt eða neitt.

Ég sé ekki alveg hver er munurinn á því samt og þeirri líkamstjáningu að krossleggja handleggi yfir bringuna þegar dyravörður á Café Fucking Helvíti talar valdsmannslega til einhvers og segir honum að hann fái ekki að koma inn. Í því tilfelli er hann væntanlega að senda einhver skilaboð um að orðin hafi einhverja viðbótar þyngd, eins og "ég lem þig í buff ef þú reynir eitthvað". Þetta er því allt saman líkamstjáning í sama skilningi og til dæmis non-verbal daður eða ógnandi hegðun til dæmis. Þarna er enginn eðlismunur sýnist mér. Munurinn er eingöngu fólgin í því hver merkingin, eða skilaboðin, eru. Ég held að enginn dragi í efa að við notum líkamann í þessum tilgangi. Ég átta mig sem sagt ekki á þessum greinarmun sem þú talar um Lilja.

En það er eitt sem ég átta mig ekki á í sambandi við þessa bók. Er maðurinn að þýða þetta handamál yfir í orð þannig að hann þykist finna einhverja samsvörun orða og hreyfinga sem er óháð einstaklingum eða kúltúr? Er hann að fjalla um kúltúral mismun í þessu? Eða er hann bara að segja að við tjáum okkur með því hvernig við hreyfum okkur?

baldur sagði...

Punkturinn hans Árna kom inn á meðan ég var að skrifa, en þetta með síendurtekin tengsl held ég að sé frekar gott observation. Það er eiginlega það sem ég var að ýja að (þó ég hafi ekki beint hugsað það) þegar ég var að tala um samsvörun orða og hreyfinga sem er óháður kúltúr.

Árni Gunnar sagði...

Ég klikkaði eiginlega á að svara spurningunni...

Teljið þið að handahreyfingar segi eitthvað meira en orðin sem þið eruð að segja?

Ég tel vissulega að orð og handahreyfing búi yfir meiri upplýsingum en orðið/setningin ein og sér. En eins og ég sagði að ofan, þá tel ég handarhreyfingar gagnslausar án pörunar við tungumál.

Undantekningarnar gætu þó verið nokkrar, t.d. dæmið sem Heiða nefnir og þegar einhver lyftir hendina líkt og hann sé að leggja til atlögu að e-m o.s.frv.

Jón Grétar sagði...

Ég er satt að segja örlítið ringlaður í þessu. Skil ekki alveg hvernig við getum horft á handahreyfingar sem "tungumál út af fyrir sig" því, eins og Baldur bendir á vantar þar alla málfræði.
Það sem ég skil hins vegar alls ekki er að þetta sé eitthvað annað en líkamstjáning.

Í öllu falli þá held ég að handahreyfingar séu allt of kaotískar til að teljast til tungumáls.

Lilja sagði...

Hmm, já, kannski væri viturlegt að útskýra málið.

Tilgangur Beattie er að leitast við að útskýra svokallaðar náttúrulegar handahreyfingar og eru þær annars eðlis heldur en handahreyfingar sem hafa verið paraðar við merkingu (til dæmis friðar V með vísifingri og löngutöng). Ef horft er á manneskju sem er að tala er ekki óalgengt að sú manneskja hreyfir hendurnar í takt við talið, þetta eru hinar "náttúrulegu" handahreyfingar sem Beattie á við. Ég held að það megi segja að ekki sé búið að tengja þær við tungumálið, en þær leggja samt áherslu á einhver orð og skv. Beattie gefa þær samtali aukna dýpt.

En handahreyfingar eru þó meira en líkamstjáning og jafnast á við tungumál (í merkingunni tjáning, ekki málfræði). Líkamstjáning, í mínum huga, tekur til stöðu líkamans, augna og handa, en ekki til hreyfinga handanna sjálfra. Gott dæmi er einmitt dyravörður. Segjum að í staðinn fyrir að krossleggja hendurnar hefði hann þær niður með síðum og hnefana kreppta. Líkamstjáningin er ljós: "Þú verður barinn ef þú reynir að komast hingað inn." Hins vegar yrði aðstæðurnar ansi kómískar og jafnvel ruglingslegar ef í staðinn fyrir að kreppa hnefana sneri hann lófunum upp og veifaði fingrunum (svona come-hither tákn). Í versta falli myndi maður halda að dyravörðurinn væri eitthvað skrýtinn. Af hverju ætli þetta sé ruglingslegt ef handahreyfingar eru ekki á einhverju sviði aðskildar líkamstjáningu?

Annað dæmi sem mér finnst sýna að handahreyfingar geta verið tungumál út af fyrir sig. Tveir einstaklingar sem þekkjast ekki, koma frá sitthvoru landinu og tala ekki sama tungumálið geta samt gert sig skiljanlega með því að hreyfa hendurnar.

Tilgangur Beattie með því að skrifa þessa bók var að sýna að hægt væri að skyggnast aðeins inn í hugarferli fólks með því að horfa á hendurnar. Ég veit ekki um ykkur, en eftir að hafa lesið pínulítið í þessari bók fór ég að taka eftir þessu hjá sjálfri mér að um leið og ég byrja að tala þá fara hendurnar af stað. Þetta er áhugaverð pæling, af hverju hreyfir maður hendurnar þegar tungumálið ætti að vera nóg?

Árni Gunnar sagði...

Ég á erfitt með að sjá hvernig hægt er að aðgreina þessar hreyfingar frá almennri líkamstjáningu.

Svo veit ég ekki hversu almennt samræmið í handarhreyfingum fólks er, jafnvel fólks sem talar sama tungumálið. Mín tilfinning er að maður þurfi að kynnast handarhreyfingum fólks til að leggja rétta merkingu í þær, ef ekki er um almennar áhersluhreyfingar og hnefasteytingar sem við þekkjum jafnt af Alþingi og úr morfís.

Hefur hann (Beattie) rannsakað þetta samræmi og komist að einhverri skynsamlegri niðurstöðu um hvað hver hreyfing þýðir?

Heiða María sagði...

Ég held reyndar að það sé eitthvert samræmi á milli menningarheima. Var ekki sjálfur Darwin að kanna eitthvað svona? Ég hef ekki lesið það, en klassískt rit eftir hann er The Expression of the Emotions in Man and Animals, sjá heildartexta hjá Project Gutenberg.

Jón Grétar sagði...

Lilja, í dæminu með dyravörðinn segir þú: "Af hverju ætli þetta sé ruglingslegt ef handahreyfingar eru ekki á einhverju sviði aðskildar líkamstjáningu?" Þetta er akkúrat ruglingslegt af því að þær virðast ekki vera aðskildar líkamstjáningu.

Svo er líka ein skilgreining sem mér finnst vanta hér. Hvað er líkamstjáning og hvenær hættir hreyfing á einhverjum öngum líkamans að vera líkamstjáning og verður eitthvað annað? Finnst nokkuð ljóst að táknmál er ekki líkamstjáning því þar er í gangi hreyfing sem lýtur ákveðnum reglum og er notuð til að tjá merkingu. Ef handahreyfingar eru ekki líkamstjáning hvað með fótahreyfingar? Ef ég krosslegg fæturnar eða glenni þær sundur eða hvað annað sem mér dettur í hug að gera, er það ekki líkamstjáning? Krosslagðar fætur eiga að vera dæmi um "varnarstöðu", að standa með fætur gleiðar held ég að sé "stand off" eða álíka og svo framvegis. Erum við þá ekki komin bara með fótamál? Þá erum við með tungumál, handamál, fótamál og svo líkamstjáningu. Engin furða að fólk sé alltaf að misskilja hvort annað.

Lilja sagði...

Ég er alls ekki að segja að handahreyfingar séu alveg óháðar líkamstjáningu, þær eru jú hluti af henni, en það sem ég er að reyna að benda á er að þær virðast hafa sterkari tengsl við tungumál heldur en aðrir hlutar líkamans.

Inngangur þessarar rannsóknar hjálpar kannski við að útskýra hvað ég er að reyna að segja.

http://www.media.mit.edu/gnl/publications/prag&cog_handout.pdf

baldur sagði...

Í þessari grein skilgreina þeir gesture (sem mér skilst að sé það sem Lilja er að tala um) sem miðlun merkingar. Miðillinn er hins vegar ekki málfræðilegur heldur eingöngu merkingarlegur. Þ.e. mér sýnist þeir vera að rannsaka einhverja samvirkni milli tveggja miðla sem eiga að bakka hvor annan upp. Gesture er communicative skv. Skilgreiningu þeirra. Það er því ekki spurning hvort þetta miðli einhverri merkingu til hlustanda, það er gefið í skilgreiningunni. Spurningin sem stendur eftir er þá hvort þetta sé á einhvern hátt eðlisólíkt body-language.

Þegar við skoðum skilgreininguna þeirra nánar, þá kemur í ljós að þeir tala um fjórar tegundir sem allar eru á einhvern hátt tjáning á táknum sem skiljast, eins og að herma eftir hreyfingum, myndmáls-hreyfingar eins og að rúlla hendinni til að tákna að e-ð hafi tekið langan tíma, gefa til kynna staðsetningar með bendingum og svo e-ð sem þeir kalla beat gestures, eins og að hrista höndina (eins og maður sé að stroka út af töflu) þegar maður leiðréttir sig. Málið er að þetta eru allt tiltölulega gangsæ tákn þannig ekki er þetta meira ómeðvitað en tungumálið sjálft. Og því varla meira unwittingly en að rétta upp þumalfingur til að gefa til kynna ok eða velja orðið bíll í staðinn fyrir bifreið. En það að þetta sé ósjálfráður og ómeðvitaður fylgifiskur tals er eitthvað sem þeir gefa sér. Það virðist því vera einhver ruglingur í skilgreiningunni hjá þeim því þótt þeir geri einhvern greinarmun á gestures og öðrum handahreyfingum (eða öðrum líkamshreyfingum – hvað með að hrista höfuðið þegar við segjum nei?) sem við tjáum okkur með, þá rennur hugtakið sem þeir eru að vinna með saman við það sem þeir eru að útiloka. Það eina sem er algjörlega rétt í þessu, og aðgreinir þeirra hugtak frá hinu sem þeir vilja útiloka, er það að þetta gerist á sama tíma og við tölum. Handahreyfingar sem við gerum þegar við erum að leita að orðum (og erum því ekki að tala akkurat þá stundina) eru nefnilega líka útilokaðar. Er þetta þá einhver alvöru aðgreinig?

Þegar kona hallar sér fram til að sýnir mér skoruna, sem við væntanlega mundum í daglegu tali kalla body-language, virðist þannig heldur ekki vera neitt í eðli sínu frábrugðið. Hún er klárlega að miðla einhverju til mín. Það eina sem er hérna er að ef hún er ekki líka að daðra í orðum, þá gæti ég misskilið þetta og ekki áttað mig á því að hún er kannski búin að gleyma því að hún ákvað að fara í flegna bolinn áður en hún fór út. Þarna erum við aftur komin að því að til að um miðlun merkingar sé að ræða verður þetta að vera meðvitað. Hún þarf þannig meðvitað að halla sér fram til þess að sýna mér skoruna ef við eigum að kalla þetta body-language. Hver er þá munurinn á þessu öllu saman, annað en að gesture-ið sem þeim einhverra hluta vegan finnst mikilvægt að rannsaka gerist á sama tíma og maður talar? (nú geri ég ráð fyrir því að við nú þegar höfum sammælst um að tungumál hafi þann sérkennandi eiginleika að að lúta málfræðireglum og að það sé sjálfstæðari merkingarmiðill en gesture og body-language).

Bottom line hjá mér að ef við ætlum að tala bara um handahreyfingar á sama tíma og tal á sér stað, þá er það fullkomlega geðþóttakennt. Í fyrsta lagi, þá notum við þessar handahreyfingar í sama tilgangi oft jafnvel þótt við séum ekki að tala, til að gefa til kynna samskonar merkingu. Í öðru lagi, þá nota nota sumir allan líkamann til hliðar við talið í nákvæmlega sama tilgangi. Sumir ráfa um gólf, jafn vel með ýktum hreyfingum, til að sýna myndrænt hvernig einhver ráfaði um golf. Aðrir sýna þetta bara með því að beina vísifingri og löngutöng niður að jörðinni og hreyfa þá fram og aftur. Hver er munurinn á þessu tvennu annar en sá hvaða líkamspartar voru notaðir?

Þegar þeir fara svo að tala um mismunandi functions of gesture, þá finnst mér þeir eiginlega vera komnir út í algjöra vitleysu. Ég kannski tjái mig um það síðar. Þetta er orðið gott núna.