fimmtudagur, mars 09, 2006

Rökvillur

Þar sem ég er þessa stundina að æfa mig í að koma auga á rökvillur ætla ég að birta yfirlit yfir nokkrar þeirra algengustu hér. Heimildir eru aðallega af Vantrú.is og Wikipediu.

1. Vísun í kennivald (appeal to authority):
Þegar því er haldið fram að eitthvað sé satt vegna þess að tiltekin manneskja heldur því fram. Dæmi: Britney Spears notar Colgate tannkrem, því hlýtur Colgate að vera betra en önnur tannkrem. Vísun í kennivald er sérstök tegund af Vísun til uppruna (genetic fallacy) þar sem skoðun er dæmd eftir uppruna hennar. Dæmi: Samkynhneigð er slæm vegna þess að það stendur í Biblíunni.

2. Post hoc rökvillan (post hoc fallacy):
Það að halda að það A komi á eftir B sanni að A orsakist af B. Dæmi: Ég varð kvefuð og tók sólhatt. Tveimur vikum seinna var mér batnað af kvefinu. Þar af leiðandi hlýtur sólhatturinn að hafa læknað mig. Post hoc rökvillan er í raun dæmi um að fylgnisamband sé ekki endilega orsakasamband (correlation is not causation).

3. Fáfræðirökleiðslan (argument from ignorance):
Þegar haldið er fram að eitthvað geti ekki verið satt því það sé ekki búið að sanna það, eða að eitthvað geti ekki verið ósatt vegna þess að það sé ekki búið að hrekja það. Þetta er rökvilla því "absence of evidence is not evidence of absence". Dæmi: Þú getur ekki sannað að Guð sé til. Þess vegna er hann ekki til eða Þú getur ekki afsannað að Guð sé til. Þess vegna hlýtur hann að vera til.

4. Klasavillan (cluster illusion):
Að halda að tilviljanakenndir atburðir sem gerast aftur og aftur séu í raun ekki tilviljanakenndir. Dæmi: Ég fékk sexu fimm sinnum í röð í spilinu. Ég hlýt að kasta teningnum svona frábærlega vel.

5. Persónuárásarvillan (ad hominem):
Þegar reynt er að gera lítið úr fullyrðingu með því að ráðast á persónu þess sem heldur henni fram. Dæmi: Hildur er á móti stríði en það er ekkert hægt að taka mark á henni, hún er bara barn og skilur ekki neitt.

6. Sök vegna tengsla:
Að segja að eitthvað sé rangt vegna tengsla við eitthvað slæmt, yfirleitt að slæmur maður hafi haldið því sama fram. Dæmi: Nasistar dýrkuðu skoðanir Friedrichs Nietzsches, þezs vegna hljóta þær að vera rangar og ógeðslegar.

8. Rökvilla brunnmígsins:
Að gera lítið úr skoðunum annars með því að draga fyrirfram úr sannfæringarmætti hans. Er skylt persónuárásarvillunni. Dæmi: Nú tekur til máls ofstækismaðurinn Gunnar í Krossinum.

9. Að gleyma undantekningunni (accident, destroying the exception):
Rökvilla þar sem aðeins er dregin ályktun út frá almennri reglu en undantekningarnar gleymast. Dæmi: Allir sem aka of hratt eru ökuníðingar. Lögreglan ekur yfir hraðamörkum. Þar af leiðandi hljóta lögreglumenn að vera ökuníðingar (lögreglubílar eru undanþegnir reglunni um hámarkshraða).

10. Að álykta út frá undantekningunni (converse accident):
Að draga almenna ályktun út frá undantekningu á reglu. Dæmi: Sumir misnota áfengi. Því ætti áfengi að vera bannað.

11. Óviðkomandi niðurstaða (ignoratio elenchi):
Þegar ályktanir leiða ekki af þeim rökum sem gefin voru og eru þeim í raun alveg óviðkomandi. Dæmi: Það er mikið að þessu þjóðfélagi. Þess vegna ættum við öll að fara að hugsa meira um siðferðismál.

12. Afvegaleiðing, "rauða síldin", "gulrótin" (red herring):
Er sértilfelli af óviðkomandi niðurstöðu, þar sem reynt er að afvegaleiða fólk viljandi, veifa svo að segja gulrót fyrir framan nefið á þeim. Dæmi: Við höfum kannski ekki staðið við loforð um skattalækkanir en sjáiði bara formann hins flokksins! Ég hef staðfestar heimildir um að hann gangi í kvenmannsnærfötum!

13. Hringavitleysan (begging the question):
Þegar einhverju er haldið fram, ályktun er dregin af því og ályktunin svo notuð til að styðja upprunalegu forsenduna. Dæmi: Styrkir er það sem styrkir hegðun (þetta er allavega mjög nálægt því að falla undir hringavitleysu).

5 ummæli:

baldur sagði...

Styrkir er það sem styrkir hegðun er náttúrulega frekar óheppilega orðið skilgreining. Okkur var kennt að orða þetta þannig að styrkir sé áreiti sem fylgir hegðun og eykur líkur á að hún endur taki sig.

Þetta er skilgreining og því felur, skv. skilgreiningu frumlagið umsögnina í sér. Það er ekki rökvilla þótt umsögnin vísi í frumlagið og öfugt vegna þess að þetta er ekki rökleiðsla, þett er skilgreining.

Hér verðum við að gera greinarmun á því sem heimspekingar kalla annarsvegar circular (sem er í lagi í okkar tilfelli) og hins vegar visciously circular eða eins og Þorsteinn Gylfa þýddi vítahringur. Question begging rökleiðslur eru gjarnan af því taginu.

Nafnlaus sagði...

Takk Heiða!

Jón Grétar sagði...

Takk fyrir þetta Baldur, ég held ég hafi aldrei séð þetta betur varið en þarna :)

jhaukur (kjwise) sagði...

Þessi færsla er góð. Ég held að allir ættu að lesa hana á hverjum degi vegna þess hvað hún er góð.

Heiða María sagði...

Þeink jú, speink jú :)