föstudagur, apríl 01, 2005

Nota bene

Mér finnst einmitt að sálfræðiskor eigi að taka það upp eftir tölvunarfræðiskor (og fleiri skorum) að bjóða upp á mismunandi námsleiðir. Það er staðreynd að fólki í sálfræði finnst annað hvort raungreinahlið (lífeðlisleg sálfræði, skynjunarsálfræði...) eða félagsvísindahlið (þroskasálfræði, klínísk sálfræði, félagsleg sálfræði...) sálfræði skemmtileg, en yfirleitt ekki hvort tveggja. Af hverju ekki að skipta þessu í tvær námsleiðir og gefa fólki þá meira fyrir sinn snúð? Allir myndu græða á því...

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ég skil mjög vel að þér finnist þessi nýjung hjá Tölvunarfræðinni spennandi en ég er forvitin um viðmið þín fyrir skiptingu í raungreinahlið og félagsvísindahlið. Svo vil ég minna á að nemendur sem hafa klárað BA nám í sálfræði við HÍ eru eftirsóttir nemendur í framhaldsnámi erlendis meðal annars af því að þeir hafa svo viðfeman bakgrunn og líka "djúpan" þannig að ég ætla að leyfa mér að mótmæla hugmyndinni um aukningu á möguleikum á sérhæfingu innan BA námsins. Og hanna nú....

Heiða María sagði...

Þetta er ekki bara spurning um hvað einhverjum skólum úti í löndum finnst, þetta er líka spurning um að nemendur:
a) Detti ekki út úr námi vegna þess að þeim finnst það ekki fyrir sig.
b) Kynnist sínu sérsviði nægjanlega svo þeir GETI valið sér framhaldsgrein.

Að auki býður ný raungreinaleið upp á að:
c) Nemendur verði betur undirbúnir í stærðfræði, líffræði og efnafræði þannig að þeir geti haldið áfram í greinum þar sem slík kunnátta skiptir máli
d) Hægt sé að gera kröfur um fleiri raungreinaáfanga sem forkröfur fyrir nám í skorinni. Þannig þyrfti ekki að kenna slíka áfanga frá grunni í skorinni en í staðinn hægt að dýpka skilning á þessum greinum.

Að auki getur sálfræðiskor alltaf haldið eftir almennri námsleið fyrir þá sem hana kjósa. Hún gæti verið nokkurn veginn eins og sálfræðinámið er núna. En það ÞARF virkilega eitthvað nám eins og ég hef lýst hér fyrir ofan og það Á að vera í boði fyrir þá sem hafa áhuga á því.

Heiða

P.S. Ég segi bara fyrir sjálfan mig að ég fer líklega í framhaldsnám í taugavísindum og mér finnst ég ekki nægjanlega vel undirbúin fyrir það, þótt undirbúningurinn hér sé alveg ágætur. Mér finnst ég heldur ekki nóg hafa getað valið áfanga í öðrum skorum, það þyrfti að hafa áfanga sem sérstaklega eru gerðir með sálfræðinema í huga.

Nafnlaus sagði...

Nei, að sjálfsögðu er þetta ekki bara spurning um hvað þeim í útlöndum finnst, I was just illustrating my point. En sálfræðinemar hafa getað tekið kúrsla í t.d. frumulíffræði og já, af hverju ekki að taka kúrsa í læknisfræði (sumir hafa gert það) og efnafræði eða efnafræðikúrsar í lyfjafræðinni o.s.f.v. Ég veit að það eru vankantar eins og stundaskrá vandamál og svo framvegis. En ég efast um að þeir nemendur sem þú kemur til með að lenda með í framhaldsnámi í taugavísindum, sama hvert þú ferð í framhaldsnám, muni hafa mikið meira bakgrunn en þú sem færir héðan frá okkur nema þá þannig að þeir vita meira en þú um ákveðið svið og mun meira en þú í öðru, þú mátt búast við að það verður öfugt, þinn undirbúningur héðan verður mun meiri, sannaðu til. En maður gerir ekki allt í einu, þ.e. fær yfirsýn yfir allt og skilning á öll undirsvið og sérhæfir sig um leið. Framhaldsnámið gefur manni þessa sérhæfingu, þú munt fá meira af því sem þú leitar að í framhaldsnáminu þínu.

Varðandi það að nemendur detta út úr námi af því að þeir finna ekki það sem þeir leita að þá er það vandamál sem við getum ekki fengist við hér. Fólk er alltaf að detta út úr hinu og þessu, út úr félögum, út úr félagsskap við einhvern, út úr hjónaböndum, út úr námi í háskóla, út úr námi í framhaldsskólum, út úr vinnu, út úr þjóðfélaginu, út úr skattakerfinu, út úr líkamsræktinni...ef styrkjarnir eru ekki fyrir hendi, og/eða refsingar í of miklu magni, þá er það það sem gerist. En það er ekki endirinn, fólk finnur sér annað félag, annan félagsskap, annan maka, annað nám....o.s.frv. sem hentar betur og það er ágætt.

Það er ekkert sem útilokar að nemendur sem ljúka BA nám í sálfræði fari beint í læknisfræði og undirbúi sig þannig mun betur undir að fara í t.d. doktorsnám í taugasálfræði eða e-ð slíkt, ég á vin sem gerði þetta fyrir mörgum árum, tók líffræði og svo tvö ár í læknisfræði og fór svo í framhaldsnám í taugasálfræði.

Og þú verður kannski glöð að heyra að nú ætlar félagsvísindadeild að standa fyrir kynningu á nám í skorinni fyrir framhaldskólana, þ.e. skólameistara og námsráðgjafa í framhaldsskólum. Þessi kynning verður sennilega 22. apríl í ár og er fyrirhugað að halda þessu árlega framvegis. Það mun gefa okkur tækifæri til að undirstrika hvaða undirbúningsnám er gott fyrir nám í skorinni.

Ef þú ert að hugsa um neuroscience þá er slíkt nám þverfaglegt og það er einmitt talinn styrkleiki slíks náms, þ.e. þegar tölvuverkfræðingar, læknar, sálfræðingar, heimspekingar og aðrir eru allir samankomnir í námið og leggja sinn bakgrunn að mörkum, þeir læra hvor af öðrum. Þá borgar sig nú aldeilis að vera með nægilegan bæði breiðan og djúpan bakgrunn í sálfræði á öllum sviðum, þannig geturðu aldeilis lagt af mörkum til sviðsins.

Heiða María sagði...

OK, þýðir ekki að deila við dómarann ;-) Mér finnst að minnsta kosti að það ættu að vera fleiri valáfangar, og að það eigi að gefa raunvísindahlið sálfræði jafn mikinn gaum og félagsvísindahliðinni.

Heiða María sagði...

Eitt kannski í viðbót. Ég get sætt mig við að það verði ekki búnir til sérstakir áfangar fyrir sálfræðinema, en mér finnst að það eigi einhver að leiðbeina manni hvað sé sniðugt að taka. Það ætti m.ö.o. að vera til eitthvert fyrirframákveðið plan fyrir fólk til að fara eftir, þótt á því séu kúrsar í öðrum deildum.

Nafnlaus sagði...

Jú, jú, gott að ræða um þetta. En ég er ekki alveg með á hreinu ennþá hvaða viðmið þú notar til að skipta sálfræði í raunvísindahlið og félagsvísindahlið. Og svo eru til námsráðgjafar í HÍ sem ættu að geta ráðlagt fólki, það er þeirra starf.

Heiða María sagði...

Námsráðgjafar geta ekki veitt nema grunnupplýsingar, þeir vita ekkert um sálfræði per se. Viðmiðin mín eru annars mjög huglæg en ég hef þetta sterkt á tilfinningunni að það skiptist svona. Það væri svo sem ekkert mál að athuga þetta. Setja bara saman lítinn spurningalista (finnst þér félagssálfræði/lífeðlisleg sálfræði/greymó skemmtileg?) og þáttagreina hann. Hugsanlega koma út raunvísindaþáttur og félagsvísindaþáttur. Ég skal meira að segja gera þetta ef einhver borgar fyrir vinnuna mína ;-)

Nafnlaus sagði...

Nei, það er ekki alveg rétt. Það eru tveir sálfræðingar starfandi í námsráðgjöf HÍ og ég held að þær væru báðar hæfar til að ráðleggja í svona málum þótt svo að þær séu kannski ekki með það alveg á hreinu hvað taugavísindi eru en einhver eins og þú gæti auðvitað útskýrt það fyrir þeim.

Og ég myndi náttúrulega ekki sætta mig við viðmið til að beita í skiptingu sálfræðinnar í félagsvísindi og raunvísindi sem væru til komin með þáttagreiningu af því tagi sem þú nefnir. Sumir hafa viljað aðgreina sálfræði frá önnur félagsvísindi út frá t.d. viðfangsefni og aðrir út frá aðferðafræði en Jonhston og Pennypacker (1993..held ég...) hafa tiltekin viðmið sem eru ekki tengd aðferðafræði eða viðfangsefni og vilja í raun meina að mest öll sálfræðin sé félagsvísindi, líka taugasálfræði og lífeðlislega sálfræði og bara allt og þá út frá því hvers konar mælingar eru notaðar, þ.e. vaganotic vs. idemnotic. Þetta eru bara ÞEIRRA viðmið en það er einhver svona viðmið sem ég hélt að þú værir með og gaman væri að ræða um. Annars bara, I rest my case.

Heiða María sagði...

Ég var að tékka á þessu vaganotic/idemnotic dæmi, og jájá, það er kannski hægt að nota þessi viðmið. Ég er samt ekkert endilega að tala um einhverja fræðilega skiptingu í raunvísindi/félagsvísindi. Það sem ég er að segja er að ég held að áhugasvið sálfræðinema skiptist eins og ég sagði.